Bretar eru þekktir fyrir grínþætti sína. Miðvikudagar á rúv hafa verið valin til að sýna landanum helstu molana, t.d. Little Britain, The Catherine Tate Show, Smack the Pony (voru reyndar á mánudögum) og fleiri gimsteina sem ég er að gleyma. Bretarnir hafa líka verið þekktir fyrir ágætis spennuþætti á borð við Spooks, Ultimate Force og nú síðast þættina Ghost Squad.
Hvernig stendur þá á öllum þessum þáttum sem velta sér upp úr eymd og volæði í verkamannastétt Bretlands? Hver hefur ekki rekist á þætti sem fjalla um verksmiðju sem á að loka þannig að allir missa atvinnuna? Ég hef séð textílverksmiðju fara á hausinn, sömuleiðis postulínsverksmiðju og eitthvað rámar mig í 2-3 syrpur af námum sem átti að loka og drepa niður andann í norðri. Allt þetta fólk lifir á lágum launum, yfirleitt drekkur fjölskyldufaðirinn illa og vill helst horfa á leiki á kránni og börnin eru útúrdópuð eða drukkin með sígarettu í annarri og föst í feitum sleik við misgáfuleg ungmenni. Ok, skemmtun fyrir suma.
Í sjónvarpinu í kvöld rakst ég á syrpu sem mér finnst falla í eymdarflokkinn. Viðfangsefnið er skóli sem inniheldur ráðalausa kennara, uppgefin ungmenni og enskukennarinn var gamall kall sem vildi troða Shakespeare í hausinn á börnunum og sá engan skilning í augum þeirra.
Burt með Waterloo Road og eymdina - komið með grínið í staðinn!
24. maí 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli