10. júní 2008

...

Undanfarið hef ég verið að taka til. Ég tók til í sálinni með góðri hjálp, ég er að taka til í líkamanum og gengur vel og nú ætla ég að taka til hér.

Ég byrjaði að blogga þegar ég flutti til Kanada, fyrir nær 6 árum síðan. Ég bloggaði fyrir sjálfa mig og fyrir vini og vandamenn heima á Íslandi og hélt þannig niðri himinháum símreikningum, auk þess sem mér fannst gaman að deila með öðrum því sem fyrir augu bar.

Þegar ég kom heim tók ég mér frí frá blogginu en byrjaði svo aftur þegar ég flutti til Reykjavíkur. Þá bloggaði ég áfram fyrir sjálfa mig og svo vini og vandamenn sem staddir voru erlendis eða hér heima á Akureyri.

Þegar ég flutti svo aftur hingað fyrir nær 2 árum hélt ég áfram að blogga, nú lítillega fyrir sjálfa mig en aðallega fyrir vini mína sem ekki voru á Akureyri.

Í dag er ég ekki að blogga fyrir neinn lengur. Svo það er komið nóg. Engin dramtík - hef bara voða lítið að segja. Ég vil líka frekar hringja í fólk eða kíkja í heimsókn :)

Takk fyrir fallegar og oft á tíðum stórskemmtilegar athugasemdir gegnum árin -
knús og kram,

Láran

2. júní 2008

Eva "litla" systir

Elsku Evan mín átti afmæli í gær - 24 ára þetta krútt :)
Ég man ennþá eftir því þegar ég gat keyrt þig í dúkkukerrunni :D

Í dag fá þau Árni Björn svo íbúðina sína afhenta þannig að skötuhjúin fara loksins af stúdentagörðunum - hipp hipp húrra!

Í öðrum fréttum þá hefur veðurblíðan leikið við okkur hérna fyrir norðan og notaði ég tækifærið og skellti mér í sund í gær. Ég held að sólin hafi endurkastast langt út í geim á postulínshvítri húð minni en ég er ekki frá því að ég hafi dökknað aðeins. Ég fékk í það minnsta nokkrar frekknur á nefið :) Ég keypti mér líka nýjan sundbol, ef "sund"bol skyldi kalla. Hann er meira svona "sólbaðsbolur" þar sem ég myndi ekki treysta mér til að synda í honum.

Óliver er að fara í skoðun og sprautu hjá dýralækninum í vikunni og það verður gaman að sjá hvort kvikindið fái ekki toppeinkunn - hann fær alla vega 10 hjá mér þessi elska :* Nú eru líka bara rétt rúmar 3 vikur í að ég taki hann heim með mér - jei!

Veðrið er yndislegt, iðnaðarmennirnir farnir að vinna í holunni hérna fyrir utan. Ætla að gá hvort einhver sé farinn úr að ofan...
p.s. bara 5 dagar í EM í fótbolta!!