28. febrúar 2006

býr ástríða í okkur öllum?

þegar maður rekst á fólk sem býr yfir þekkingu á öðrum hlutum en maður sjálfur er auðveldlega hægt að hrífast með ef vel er haldið á spilunum.
Sumt fólk á auðveldara með að koma frá sér ástríðum sínum og ná þannig til fjölda manna sem annars sætu kyrrir og lifðu einungis í sínum eigin huga. Ef hægt er að vekja fólk til umhugsunar með því einu að vera annt um málefnin sín þá er hægt að hafa áhrif - góð áhrif.

Ég veit hvar mínar ástríður liggja - eða ástríður mínar í augnablikinu. Mér hefur alltaf þótt vænt um bækur og bókasöfn. Það er eitthvað við lyktina af pappírnum, hvernig þær raðast misháar í hillurnar og eru mislitar eftir kápunum sem fær hjartað til að slá aðeins hraðar.
Í hvert sinn sem ég heyri frétt um Kanada tekur hjartað mitt lítið aukaslag - eins og það þurfi að slá aukalega fyrir landið sem tók svo vel á móti mér.. landið sem ég sakna stundum ennþá... aðallega sakna ég fólksins og reyni að forðast þá hugsun að suma sé ég aldrei aftur...
Þegar ég heyri tónlist sem virðist slitin úr hjarta og huga tónlistarmanna og sett á disk fyrir alþjóð að gagnrýna, dæma, slíta í sundur og túlka á sinn eigin hátt - þá held ég oft niðri í mér andanum aðeins of lengi...

Á föstudaginn kviknaði ný ástríða í huga mér. Hún kom mér alveg á óvart því ég hélt ég gæti ekki myndað mér nýjar heitar ástríður á svona köldum mánuði en þarna var hún. Í dimmu herbergi andspænis gamalli bók vaknaði með mér ástríða á einhverju sem ég get ekki alveg neglt niður - en hjartað í mér hefur síðan þá verið óvenju hresst, sálin óvenju létt og göngulagið aðeins hraðara.

Ég sit núna við skjáinn, reyni að finna hjá mér löngun til að lesa meira en hún kemur ekki.. Eina löngunin núna er í heitt bað og svo beint undir sæng... kannski ég reyni að vaka aðeins lengur- bara aðeins lengur...

26. febrúar 2006

Walk well, brother

Var að koma heim frá Kanadísku kvikmyndahátíðinni í Norræna húsinu. Við sáum tvær myndir, The importance of being Icelandic, 40 mín heimildamynd um vestur íslendinga sem komu hingað í leit að uppruna sínum og svo mynd sem heitir Snow Walker. Seinni myndin var alveg frábær, Barry Pepper sýndi stórleik sem flugmaður er hrapar vélinni sinni einhvers staðar í hrjóstruga norðursvæðinu. Lítil og krúttlega Inúíta stúlka hjálpar honum að halda lífi og kennir honum hvernig á að ná sambandi við náttúruna á sama tíma og hún sjálf glímir við berkla. Hljómar kannski ekki spennandi í eyrum margra en hún var þrusugóð - þið verðið bara að treysta mér ;)

Er búin að vera í lærdómi um helgina en tók mér pásu í gær til að versla saltkjöt og horfa á Sister Act með Ólöfu og Salóme úr vinnunni og hef þar af leiðandi verið að syngja
"I will follow him, follow him wherever he may gooooo" í ALLAN dag!!!
Ætla að fara snemma að sofa svo ég nýti morgundaginn vel - próf á þriðjudaginn í Málnotkun...

ble í bili

25. febrúar 2006

af vandræðagangi og vetrarhátíð

ok,
var rosalega dugleg í dag að afla mér upplýsinga og kanna netheiminn sem leiddi mig óhjákvæmilega að Þjóðarbókhlöðunni í enn frekar leit upplýsinga. Ekki vildi þó betur til en svo að þegar ég er að koma upp á 3. hæð hlöðunnar verður mér eitthvað á í síðasta þrepinu og hálf dett ég svona uppfyrir mig en lendi samt á pallinum - beint á milli tveggja stráka sem stóðu á spjallinu! Það eina sem ég gat sagt og gert var "Jesús, enn vandræðalegt" og staulaðist á fætur og gegnum glerhurðina... Rauð í framan og með dularfullan verk í hægri hnésbótinni staulaðist ég að næsta borði og bölvaði í hljóði.. Ég hefði að sjálfsögðu átt að skella mér á línuna "Ég bara féll fyrir ykkur strákar" - en er maður ekki alltaf vitur eftir á?

Í kvöld ákvað ég svo að gerast menningarleg og skellti mér á Þjóðminjasafnið og hlustaði á Þórarin Eldjárn tala um minningar sínar af safninu en hann ólst upp innan veggja safnsins. Maðurinn er með endæmum orðheppinn og kann aldeilis að segja sögur! Eftir lítinn kaffibolla skundaði ég niður á Borgarbókasafn þar sem ljóðlestur, bútasaumur og arabíska hljómuðu um sali safnsins áður en ég trítlaði í næsta hús - Hafnarhúsið. Þar var Stomp að flytja verk ásamt því að allar sýningar hússins voru opnar og vafraði ég aðeins um kalda sali hússins áður en ég ákvað að færa mig úr skuggahverfinu og aðeins nær heimahögunum.

Þjóðmenningarhúsið er eitt af þeim húsum sem ég hef aldrei komið inn í og varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum í kvöld. Tvær yndislegar konur tóku á móti mér með brosi á vör og leiðbeindu mér um húsakynnin á og bentu mér á að "alvöru" handritin væru geymd í dimmu herbergi bakatil í húsinu. Eftir að hafa skoðað ljósmyndir og skreytingar úr handritunum, séð nokkrar fréttamyndir af heimkomu handritanna og vafrað um ein í smá stund fann ég dimma herbergið- og það var aldeilis dimmt. Ég bakkaði næstum út aftur en harkaði af mér og varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Þarna voru þær komnar, Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók - bækurnar sem ég er búin að vera að lesa um og úr. Skinnin af öllum þessum kálfum, teygð og hreinsuð, vandlega skrifuð og nostrað við lágu eins og dýrgripir sem ég hafði aldrei ímyndað mér. Ég fylltist einhverju vandræðalegu stolti sem kannski má kalla klisju en sjaldan hef ég verið eins stolt af því að gea bent á eitthvað og sagt það vera menningararfur minn. Ég endaði ferð mína í litlu herbergi með bandarískum hjónum og dóttur þeirra að skrifa með fjaðurpennum á lítil bréfsnifsi og hlustaði með öðru eyranu á fjölskyldufaðirinn spyrja konurnar um aðferðir við varðveislu á handritunum.

Allt í allt held ég að ég hafi lært meira á 2 klukkutímum í kvöld en ég hef í langan tíma. Vona að þetta hvetji mig áfram í lærdómnum á morgun en nú er kominn tími að skella þjóðlega rassi mínum undir sæng og vona að ég sofni út frá draumum um litla menn við kertaljós að skrifa á skinn.....

24. febrúar 2006

síðasti föstudagur febrúar

Hvert fór tíminn?
Alveg hreint ótrúlegt að það sé að koma nýr mánuður með nýjum verkefnum og ég ekki búin að klára þau sem ég vildi!
Af hverju er alltaf þúsund sinnum meiri vinna á bak við allt en maður heldur í byrjun? Getur einhver sagt mér það?

Sit í Árnagarði sveitt við að grufla upp ritdóma, gagnrýni, umfjöllun um þýðingar Matthíasar á Shakespeare en gengur voðalega hægt.. held ég verði kannski að játa mig sigraða og færa mig yfir á næsta mann, hann Helga H.
Ef mér tekst vel til í dag ætla ég að verðlauna mig með því að fara á skauta á sunnudaginn með Lisu og Daniel.. þarf bara að muna að hringja í þau bæði og láta þau vita ;)

Það er sól úti, veðrið alveg til fyrirmyndar - hafið það gott í dag

23. febrúar 2006

Afsakið, lærdómur stendur yfir

Vildi að ég gæti sett svona skilti á húsið mitt svo að það væri ekki svona mikill hávaði í kringum mig! Ég ætti að sjálfsögðu bara að fara eitthvert annað en ég var eitthvað heimakær í morgun- vildi ekki út!
Er búin að sitja yfir þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Rómeó og Júlíu og fannst ég eiga skilið að taka mér smá pásu, skunda út í Bónus og kaupa smá mat (og nammi:) er að maula lítið súkkulaðistykki sem hrópaði á mig að kaupa sig - maður fer ekki að neita svoleiðis ... er það nokkuð?

Nýji síminn minn virkar líka svona agalega vel - er búin að setja inn vel valda hringitóna og nokkrar skemmtilegar myndir líka... nú þarf ég bara að spurja Bjössa hvernig ég á að setja þær inn á bloggið mitt!

En jæja, Matthías kallinn bíður eftir mér - best að kíkja betur á hann

21. febrúar 2006

Hello new telephone!

Já krakkar, ekki entist ég lengi í helvíti!
Fór og keypti mér nýjan síma í dag og er hann í hleðslu akkúrat núna. Verð komin aftur í gott skjásamband í fyrramálið :) Þið getið séð mynd af símanum mínum hérna.

þjáist af stanslausri hnakka stífni, er að drepast úr vöðvabólgu greinilega og hefur hún áhrif á skapið rétt eins og líkamann ;) Hafði ekki mikla þolinmæði í vinnunni í dag en svona er víst lífið eða such is life eins og við Lisa segjum allt of oft!

Á morgun er bara bókasafnið og svo lunch með henni Önnu Margréti minni sem tilkynnti mér að loksins verðum við búsettar í sömu borg næsta vetur!!! Við höfum ekki búið á sama stað síðan ég kom heim frá Kanada í maí 2003 og þá var það aðeins í nokkra mánuði þannig að ég er ansi spennt! Þetta verður extra ljúft þar sem Guðjón minn yfirgefur mig líklegast í byrjun sumarsins og verð ég svakalega ein hérna þá!
en venst maður ekki öllu? bara spurning um tíma...

farewell my tephalone

nú er það svart... eða meira blátt kannski. Skjárinn á símanum mínum gaf sig endanlega í dag og er ég nú hálf handalaus! Það þýðir ekkert að senda mér sms og ég sé ekki hver er að hringja í mig.. frekar erfitt allt saman! Það versta við þetta er samt að nú veit ég ekki hvað klukkan er!!!! Hef voðalega sjaldan gengið með úr og hef því treyst á símann minn til að segja mér hvað tímanum líður en núna er ég aldeilis allslaus.
Ég held að þetta séu endalok sambandsins - nýr sími verður keyptur helst í dag svo hann geti notast á morgun...

Átti annars ágætis helgi, var mjög þreytt og með mikinn svima en komst klakklaust í gegnum 3 daga vinnutörn. Í dag ætlaði ég svo að læra og vinna seinnipartinn en þurfti að skjótast í vinnuna áðan í rúmlega klukkutíma og fer svo aftur á eftir.. nennti ekki að hanga í holtagörðum í 3 klukkutíma - það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að eyða tímanum í þessum búðum!

þarf að vinna eitt stykki verkefni í vikunni og læra undir próf á þriðjudaginn - jibbí

17. febrúar 2006

solitary man

Loksins komst ég í bíó á Walk the Line!
Fyrir þá sem lesa hér reglulega þá var uppselt í síðustu viku og endaði ég á Ölstofunni í staðinn.. það var reyndar frekar skemmtilegt kvöld :) En sem sagt, þá skelltum við Guðjón okkur í bíó í gær og urðum alls ekki fyrir vonbrigðum! Svona í tilefni afmælis hans um daginn hljóp ég í skífuna fyrst og splæsti í tónlistina úr myndinni.
Það er alveg ótrúlegt hvað þau Joaquin og Reese sýna snilldartakta í myndinni og fá mann til að trúa að þau séu í raun Johnny og June.. vel gert, vel gert.
sit einmitt núna og hlusta til skiptis á lögin hans af American III og svo hann Joaquin syngja lögin úr myndinni, sérstaklega Get rhythm... ég held að ég sé líka búin að finna ákveðinn takt í sálinni minni.. ansi ljúft..

Hef samt líka uppgötvað Rás 1 alveg upp á nýtt og er það eiginlega kennaranum mínum að þakka, honum Hauki. Hann benti okkur á að hlusta á Passíusálmana svona annað slagið á kvöldin og er ég eiginlega búin að hlusta alltaf -svona eftir á. frekar flott að hafa vef upptökur þannig að maður geti kíkt á þetta þó svo maður missi af þessu í útvarpinu...

sit á náttbuxunum í hálf myrkruðu herbergi, ein heima - bíð eftir að gulu skyrturnar hoppi sjálfar úr þvottavélinni og upp á snúrurnar... nenni ekki að labba niður í kjallara og alla leið upp aftur... Framundan er vinnuhelgi - eins gott að ég selji slatta af dóti!

15. febrúar 2006

af veikindum

ok,
ég er að skríða saman eftir heiftarlega sólarhringspest sem ég fékk í gærmorgun! Vaknaði við ógurlega verki í maganum og eyddi morgninum á klósettinu þar sem vessar komu ýmist upp eða runnu niður! Eftir að hafa staulast að símanum til að tilkynna veikindi í vinnunni náði ég að drekka vatn og sofna örlítið en vaknaði við það að ég var komin með 38 stiga hita og leið bölvanlega. Hitinn náði hámarki um hálf 9 í gær þegar ég mældist með 39 gráður og var þá jafnvægisskynið í ólagi og ég grenjaði því mér leið svo illa. Ef Guðjón hefði ekki keypt handa mér bláan Powerade þá held ég að ég hefði ekki lifað þetta af..

Í dag líður mér nú aðeins betur, hitinn er farinn en ég er með sjúklegan svima - tengist líklega því að ég hef ekkert borðað í rúman sólarhring.. er núna að pína ofan í mig pasta því það var það eina sem ég átti í augnablikinu..

held ég kíki aðeins á ólympíuleikana í sjónvarpinu og lesi svo meira í bókmenntasögu..

13. febrúar 2006

helgarlok

þá er helginni minni lokið og heimsókn Steinunnar systur og Ágústar Óla. Mikið fjör, glens og grín ásamt bleyjuskiptum, frekjuköstum og kókómjólkurdrykkju ;)

Á laugardaginn var ég í stífu prógrammi með litla frænda ásamt Evu systur og Árna á meðan mamma hans var í vinnunni og náðum við að gera eftirfarandi:
-fara í húsdýragarðinn og sjá þegar selirnir fengu að borða
-borða kjötbollur í IKEA og renna okkur óspart í rennibrautinni
-heimsækja Evu og horfa á "skíðakalla" í sjónvarpinu
-kíkja á 112 daginn í Skógarhlíðinni og sjá alla sírenubílana
-gefa öndunum brauð og reyna að forðast gæsirnar gráðugu
-labba upp alla stigana heima hjá mér án þess að þurfa hjálp!
Það er kannski ekkert skrítið að barnið steinsofnaði kl. 7 um kvöldið!!
Sunnudagurinn var öllu rólegri og fór öll dagskrá fram innandyra sökum leiðinlegs veðurs en þá náðum við líka að lita myndir, hoppa í rúminu, binda bönd í húsgögnin og svona ;)
Í dag var svo tekinn smá rólórúntur og andabrauði hent í "litlu endurnar" auk búðaferða í smáralind og IKEA aftur!
Ég verð að viðurkenna að ég sofnaði á sófanum eftir að heimsókn þeirra lauk í dag enda skil ég ekki hvar börn fá alla þessa orku sem þau hafa!!

Í dag á svo Guðjón afmæli og ég ætla að baka betty brownies handa honum eftir smástund.. þegar ég nenni að standa aftur upp....

vona að ykkar helgi hafi verið eins viðburðarrík og skemmtileg og mín!

10. febrúar 2006

bíó or bust

ok, svo bío ferð okkar var algjört bust þar sem það var uppselt á myndina! við fórum í staðinn á Ölstofuna þar sem við fengum okkur drykki til að halda upp á ... eitthvað! gott kvöld alla vega og geðveikt nice að sitja þarna því enginn böggar mann þar sem allir þarna inni eru sjúklea self absorbed og vilja ekki tala við aðra!

gott kvöld, skemmtileg helgi framundan þar sem 2 og hálfs árs frændi minn verður aðal stjarnan!

hafið góða skemmtun!

9. febrúar 2006

af súkkulaðiköku og tímaskorti

ég sver það, alltaf þegar ég ætla mér að blogga þá er eitthvað vesen hjá blogger.. gat ekki skráð mig inn í gær þrátt fyrir mikla þolinmæði af minni hálfu (fannst mér)
En, í gær kom Lisa í heimsókn í fyrsta bakstur úr súkkulaðibókinni sem hún gaf mér í afmælisgjöf :)Kakan rann mjööög ljúlega og létt niður, sérstaklega í ljósi þess að við drukkum kanadískt te sem ég fékk í gjöf frá Guðrúnu!
Við ræddum heimsmálin, kanadíska kvikmyndahátíð og það hversu lítill tími er í raun fyrir annað en skólann og vinnuna.

Sit einmitt núna í smá 'eyðu' milli skóla og vinnu og ég ætti í raun að vera að lesa, þvo þvott, fara í ræktina, laga til og slappa af á sama tíma en því miður- þó ég geti gert nokkra hluti í einu þá er þetta allt of mikið! Ég ætla samt að njóta þess í kvöld að fara á Walk the Line í Regnboganum með Guðjóni :)Er einmitt að hlusta á eina af perlunum af American III, I see a Darkness.. ljúft

5. febrúar 2006

ahhh... enn hvað það er gott að sitja hérna heima í þögninni eftir 2 daga af stanslausum straumi fólks sem vill að maður hjálpi sér.
Í gær var Karókíkvöld Ikjea á Ölver og var ég bílandi :) skemmti mér ansi vel við að fylgjast með misdrukknum starfsmönnum reyna fyrir sér á sviði - vildi að ég hefði tekið með mér myndavél! Ég ákvað að taka ekki þátt í þessu heldur söng bara Hollaback girl í bílnum á leiðinni heim.. miklu betra að syngja bara fyrir sjálfan sig!

Náði að læra ansi mikið og kláraði tvo lítil handavinnuverkefni sem hafa legið ofaní körfu allt of lengi...

Held ég horfi á 24 og slappi rækilega af í kvöld, er að vinna allan daginn á morgun..

tjuuuuuuus

2. febrúar 2006

janúar búinn- febrúar hafinn

þá er bara kominn nýr mánuður. Ég biðst forláts á þessu blogg leysi en ég hef varla verið heima hjá mér til að borða og sofa hvað þá blogga!
Undanfarin vika hefur farið að öllu leyti í vinnu, mætingu í skólann og svo fór allur (og þá er ég ekki að ýkja) gærdagurinn í fyrirlestrarvinnu sem skilaði sér svo feitt áðan að það hálfa væri nóg!
Við Þórdís áttum sem sagt frábæran fyrirlestur um Tristram og Ísönd sem var svo ýtarlegur að þegar við spurðum hvort það væru einhverjar spurningar sagði kennarinn:" ég held þið hafið bara farið í allt saman, þurfum engar umræður". snilld.

Er núna að ná andanum og búin að stússast í bankaveseni áður en ég skutlast í vinnuna og svo í heimsókn í Hafnarfjörðinn til hennar Lisu minnar að sjá nýja kettlinginn, hana Peanut :)
Á morgun á ég svo langþráð frí áður en ég dembi mér í helgarvinnu sem teigir sig inn á mánudaginn..

eins gott að maður er skipulagður ;)