28. febrúar 2006

býr ástríða í okkur öllum?

þegar maður rekst á fólk sem býr yfir þekkingu á öðrum hlutum en maður sjálfur er auðveldlega hægt að hrífast með ef vel er haldið á spilunum.
Sumt fólk á auðveldara með að koma frá sér ástríðum sínum og ná þannig til fjölda manna sem annars sætu kyrrir og lifðu einungis í sínum eigin huga. Ef hægt er að vekja fólk til umhugsunar með því einu að vera annt um málefnin sín þá er hægt að hafa áhrif - góð áhrif.

Ég veit hvar mínar ástríður liggja - eða ástríður mínar í augnablikinu. Mér hefur alltaf þótt vænt um bækur og bókasöfn. Það er eitthvað við lyktina af pappírnum, hvernig þær raðast misháar í hillurnar og eru mislitar eftir kápunum sem fær hjartað til að slá aðeins hraðar.
Í hvert sinn sem ég heyri frétt um Kanada tekur hjartað mitt lítið aukaslag - eins og það þurfi að slá aukalega fyrir landið sem tók svo vel á móti mér.. landið sem ég sakna stundum ennþá... aðallega sakna ég fólksins og reyni að forðast þá hugsun að suma sé ég aldrei aftur...
Þegar ég heyri tónlist sem virðist slitin úr hjarta og huga tónlistarmanna og sett á disk fyrir alþjóð að gagnrýna, dæma, slíta í sundur og túlka á sinn eigin hátt - þá held ég oft niðri í mér andanum aðeins of lengi...

Á föstudaginn kviknaði ný ástríða í huga mér. Hún kom mér alveg á óvart því ég hélt ég gæti ekki myndað mér nýjar heitar ástríður á svona köldum mánuði en þarna var hún. Í dimmu herbergi andspænis gamalli bók vaknaði með mér ástríða á einhverju sem ég get ekki alveg neglt niður - en hjartað í mér hefur síðan þá verið óvenju hresst, sálin óvenju létt og göngulagið aðeins hraðara.

Ég sit núna við skjáinn, reyni að finna hjá mér löngun til að lesa meira en hún kemur ekki.. Eina löngunin núna er í heitt bað og svo beint undir sæng... kannski ég reyni að vaka aðeins lengur- bara aðeins lengur...

Engin ummæli: