28. nóvember 2005

'Við vorum orðin svo stressuð yfir að koma hingað'

þetta sagði Jónsi í Sigur Rós rétt áður en tónleikunum lauk í höllinni í gær.. öö þau hefðu alveg getað sparað sér þetta stress því þetta var ÓTRÚLEGT!!!!! Ég er samt ekkert smá fegin að ég var í stúku en ekki í maurahafinu á gólfinu eins og allir 'litlu krakkarnir'.
Sviðsframkoman, öll umgjörðin í kringum tónleikana, ljósin, myndbrotin sem er varpað á tjaldið bakvið þá - allt saman small eins og flís við rass og maður fór í gegnum allan tilfinningaskalann bara. Ég held ég hafi verið með gæsahúð meirihlutann af þeim 2 og hálfum tíma sem þeir voru á sviðinu og geri aðrir gott betur!

öll, öll, öll uppáhaldslögin mín fengu að hljóma um salinn -
er hægt að biðja um eitthvað betra?

24. nóvember 2005

glæst endurkoma

þvílíkur snillingur sem Snjólaug Bragadóttir er!
Fyrir ykkur sem kannist ekki við nafnið, eða kannist við það en munið ekki hvaðan þá er hún snilldar rithöfundur sem átti sína gósentíð á íslenska bókamarkaðinum seint á 8. áratugnum og snemma á þeim 9. Í íslenskuáfanga í MA gerði ég heimasíðu um hana sem var enn virkur þar til fyrir örfáum mánuðum. Í dag vinnur hún sem þýðandi hjá 365 miðlum og þýðir meðal annars Nágranna, Opruh og einhverja glitz þætti á Sirkus.En nú er hún búin að toppa allt saman!
Snjólaug Braga er að endurþýða Ísfólkið!!!!
Alveg áttti ísfólkið hug minn allan á tímabili, líklega 14-15 ára og held ég að allar vinkonur mínar á þessum tíma hafi lesið ísfólkið alla vega einu sinni ef ekki oftar! Það truflaði mig alltaf rosalega hvað þær voru einmitt illa þýddar, hálfkák og stafsetningavillur í hrönnum alveg en vá vá vá!
Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafnánægð með eina manneskju eins og hana í dag!

Til lukku Snjólaug og til lukku allir nýjir ísfólkslesendur á íslandi í dag... hehehehehehe

21. nóvember 2005

símaleysi

ég gleymdi símanum mínum heima í morgun, verð ekki í símasambandi fyrr en um 6 leytið í kveld...

20. nóvember 2005

Andlaus andi

ég held ég sofi of mikið. Fer snemma að sofa (fyrir miðnætti) en næ yfirleitt aldrei að drulla mér á lappir á skynsamlegum tíma.. kannski ég verði að endurskoða gardínurnar mínar - sleppa dimmunni í bili ;)

Ég er annars alveg að truflast á þessari bókmenntaritgerð.. nenni ekki að vera svona lengi að þessu en þetta er að mjakast.. mjaaaaaaakast og sé ég framá að geta kannski klárað hana í dag.. en þegar ég meina klára þá meina ég "best að láta hana liggja í nokkra daga og laga hana svo.. helling" þannig að þetta er ekkert að klárast ..

eftir 12 daga fer ég heim í laufabrauð - það er 'gulrótin' mín.. klára allt fyrir þann tíma... *andvarp*

17. nóvember 2005

fræðimennska

ég er búin að komast að því að ég á ofsalega erfitt með að tjá mig fræðilega á íslensku. Að sjálfsögðu kenni ég enskunáminu um og því að ég bjó úti í 1 ár en come on! Er þetta ekki móðurmálið? á maður ekki að hafa þetta í genunum líka? úff bara púff!
ritgerðin mín gengur sem sagt hægt - ekki vegna þess að ég sé ekki með nóg af efni heldur vegna þess að ég er stanslaust að gagnrýna sjálfa mig ef ég næ að aula einhverju út úr mér. Held ég verði bara að sparka vel í rassinn og drífa þetta af! Beinagrindin er sjúklega flott og held að ef ég næ að fylla almennilega inní hana þá verði þessi bókmenntagreining bara ansi góð.. en eins og ég segi, tjáningin lætur standa á sér.

Er að fara í kanadíska sendiráðið á föstudaginn með hóp enskunema. hlakka geðveikt til að sjá þarna inn því þetta sendiráð var tekið í notkun árið eftir að ég var úti.. maður nær kannski að slá um sig með orðum eins og Touque, tobogganing og spjalla um Tim Horton's kaffi og Cesar's drykki, að ógleymdum Chrétien sem var mest hataði forsætisráðherra Kanada í mörg ár...

er í fríi í vinnunni um helgina og verð að sitja við skriftir meirihlutann af henni.. ætla þó að bregða mér á tískusýningu með Guðjóni og flissa með honum allan tímann..

tjus tjus frá þreyttri píu í þingholtunum

14. nóvember 2005

mánudagar eru bara erfiðir

enn ein vikan að byrja og nú styttist óðum í ritgerðaskil og hefur púlsinn minn hækkar í samræmi við það. Ég veit að þetta hefst allt saman á endanum en það er bara erfitt að sjá það fyrir sér núna.. get eiginlega bara tekið einn dag fyrir í einu.. höndla ekki langtímaplön í augnablikinu.

Eftir veikindi gærdagsins (og nei, þau tengdust ekki enskupartýinu á laugardaginn) reis ég upp eins og fönix úr ösku og mætti í tíma í morgun kl. 8:15, tilbúin með heita vatnið fyrir Tetley's teið mitt... mm.. Lisa kom með tepokana og Hulda kom með mjólk þannig að það reddaði eiginlega morgninum.

er að reyna að vinna í ritgerðunum mínum samhliða.. gengur ágætlega en held að þessi vika muni hafa mest með það að segja hvort þær séu allt í lagi, eða góðar.. vera dugleg, vera dugleg.

12. nóvember 2005

'Jólaskrautið er inni á lagersvæðinu'

Þessi setning er orðin besti vinur minn eftir vinnudaginn í dag.
það var heitt og leiðinlegt í vinnunni í dag - allt of margir erfiðir viðskiptavinir sem tóku allt mikinn tíma af lífi mínu.. mun reyna að gleyma þeim öllum í kvöld.

Sá annars í hádeginu blaðið Sirkus RVK og vá hvað þetta blað hefur alveg hrunið í gæðum. Komst svo að því að síðan Mikki Torfa tók við ritstjórninni hefur það færst nánast í sama horf og hann kom DV í á sínum tíma.. frábært. Ákvað í staðinn fyrir að drepa í mér heilasellur með lestri á þessu riti að kaupa mér jólagardínur í eldhúsið.. vei vei! það verður jólalegt hérna strax fyrsta í aðventu sem myndi vera 27. nóvember. get varla beðið...

sit heima og er að græja mig fyrir enskupartý hjá Maríu Erlu og hlakka geðveikt til! Hef ekki séð suma í langan tíma, aðra sé ég nánast daglega ;) verður forvitnilegt að sjá hvernig spilast úr kvöldinu :D

9. nóvember 2005

að spíta í lófana

já það er sko kominn tími til. Var að staðfesta flug heim til Akureyrar fyrstu helgina í desember til að komast í laufabrauð með fjölskyldunni. Sá að ég á að skila ritgerðunum mínum 2 dögum fyrr þannig að þessi ferð verður smá afslöppun áður en ég þarf að læra undir bókmenntafræðiprófið mitt 14. des :)

annars held ég að ég sé undir áhrifum af myrkrinu. Ég vakna á hverjum morgni allt of seint og sé að ég hef í móki slökkt á vekjaranum.. verð að laga þetta. Vaknaði rétt áðan við símhringingu frá mömmu, sem betur fer því ég á eftir að lesa eina grein áður en ég fer í skólann.

sé fram á erfiðar 3 vikur en þá verður maður bara að brosa, drekka kaffi og vona það besta!

6. nóvember 2005

að borða yfir sig

ég get varla hreyft mig. augnlokin síga stanslaust niður og viðbragðshraðinn er í sögulegu lágmarki. ég var að borða kalkún :)

Matarboðið gekk eins og í sögu, kalkúnninn var fallega brúnn og safaríkur og allt meðlætið frábært.. graskersbakan rann svo ljúflega niður að ég táraðist næstum því. fullkomið. ég dauðvorkenni Ingu, Einari og Hólmari að hafa þurft að setjast upp í bíl eftir þessa stórmáltíð því við vildum öll bara leggja okkur! ég get varla bloggað meira í bili.. nenni ekki né get vaskað upp.. legg bara draslið í bleyti og bíð fram á morgun...

frábær endir á góðri helgi :D

5. nóvember 2005

að færa þakkir

á morgun held ég smá matarboð fyrir vinahóp minn að norðan. ég og guðjón vorum búin að ákveða þetta fyrir ári síðan en sökum anna og peningaleysis þurftum við að fresta því sí og æ þar til að nú spörkuðum við í rassinn á hvort öðru og skelltum okkur á kalkún. já, við erum sem sagt að fara að elda þakkargjörðarmáltíð á morgun og er þetta svo tímafrekt að matseldin byrjaði í dag!
Eftir martraðaferð í hagkaup í kringlunni byrjaði ég að vippa í eina graskersböku (sem tók by the way langan tíma) og eftir að hún var í höfn þurfti ég að byrja á trönuberjasósunni sem breyttist síðan í trönuberjasultu.. því ég á ekki matvinnsluvél ;) nú er ég sveitt að undirbúa mig fyrir fertugsafmæli Berglindar (til hamingju!!) sem verður veisla aldarinnar ef marka má sögusagnir!

en boðskapur hátíðarinnar er að færa þakkir. ég er mjög þakklát fyrir þessa vini mína sem eru að koma á morgun og ég er þakklát fyrir að þrátt fyrir að langt líði á milli símtala stundum þá er alltaf auðvelt að finna þráðinn aftur þegar það loks gerist.

aðrar þakkir mínar fara meira með hugboðum og rata vonandi á rétta aðila; þakkir fyrir vináttu; þakkir fyrir að kynnast fólki aftur - og jafnvel á alveg nýjann hátt; þakkir fyrir meiri tíma; þakkir fyrir fjölskylduna; þakkir fyrir lífið...

3. nóvember 2005

bilun

held ég sé eitthvað klikkuð. verð alla vega fyrir allt of miklum áhrifum af sjónvarpinu!
Sat áðan og var að horfa á King of Queens með öðru auganu.. sá að þau réðu svona húshjálp sem átti að þrífa og þvo þvott og svona.. hjálpa til sem sagt. áður en ég vissi af var ég staðin upp og farin hálf inn í eldhússkápinn minn til að finna jólaköku dúnkana mína. af hverju, heyri ég ykkur spyrja. jú, af því að húshjálpin hafði þrifið kökukrúsina þeirra og sett Oreo kexið hans Doug ofan í hana. oooooookeeyyy.... klukkutíma og mjöööög hreinu eldhúsi seinna fattaði ég að eitt leiddi af öðru og ég var farin að skrúbba skápana, eldavélina og bökunarofninn...

held ég verði að róa mig aðeins.. leggja frá mér tuskuna...

2. nóvember 2005

nóvember

nú fer pressan virkilega að leggjast á mann eins og mara. Þarf að skila ritgerðum í lok mánaðarins og undirbúa þetta eina próf sem ég ferí 14. desember ásamt því að vinna eins mikið og hægt er til að safna smá aukapening! Það er eins og árstíðaskiptin séu loksins skollin á, veturinn er alveg pottþétt tekinn við af haustinu og sannast það á vetrarhríðinni sem skall á okkur á föstudaginn. Oftast fylgir svona nett lægð með aukinni dimmu, auknu verkefnaálagi og þreytu vegna of mikillar vinnu en í ár ætla ég að reyna að bægja þessu frá mér.
Held að það sé betra að sjá fallegu hliðina á þessum hlutum frekar en sorglegu. Af hverju ekki að hlusta á tónlist sem er svo falleg að stundum verður hún sorgleg? eða verður hún kannski ekkert sorgleg heldur vekur hún það í manni á hverjum tíma sem er manni efst í huga? hef mikið pælt í þessu undanfarið...

er að reyna að skrifa söngleikjaritgerðina mína - það gengur, það gengur..