30. nóvember 2006

makalaus

Ég er að fara á árshátíð nemenda á morgun. Sú fallega hefð að hafa árshátíð skólans á fullveldisdaginn, 1. desember, finnst mér alveg frábær. Við erum svo heppin að í ár lendir sá dagur einmitt á föstudegi og því verður þetta enn ánægjulegra.

Á boðsmiðanum mínum er nærveru minna og maka míns óskað á árshátíðinni. Ég á ekki maka og er því makalaus. Ho ho ho...Alltaf gaman þegar maður man eftir tvíræðum orðum í íslensku, því ekki eru þau mörg.

Fer í klippingu á morgun - hlakka mjög til að snyrta aðeins makkann svo maður verði nú fínn á árshátíðinni og um jólinn.. mig langar ekkert sérstaklega að fara í jólaköttinn!

Lítið að gerast annars, verkefnabunkinn hefur snarminnkað en ég á samt von á fleiri vinnubókum eftir helgina. Vona að ég geti aðeins hvílt mig á sunnudaginn - laufabrauð á laugardaginn!

27. nóvember 2006

aukinn aðgangur

loksins get ég unnið heima við án þess að muna sífellt eftir skjölum sem ég get bara náð í á skólanetinu. Mér hefur tekist að fá aukinn aðgang að svæði mínu. Jess! Nú sit ég í makindum heima og fer yfir verkefni og bý til skjöl án þess að þurfa síðan að senda mér þau í tölvupósti. Trúið mér, það er leiðingjarnt til lengdar.

Helgin mín var ansi skemmtileg. Ég bakaði smákökur með mömmu (5 sortir), fór í laufabrauð með nokkrum kennurum skólans og lærði að skera kökur "upp á gamla mátann". Gamli skóli "ilmaði" af steikingarlykt en það gerði ekkert til. Ég náði líka að klára jólagjöf sem ég var að föndra og er nánast búin með peysu handa litla bumbubúanum þeirra Ingu og Einars. Kannski ekki seinna vænna því einungis 8 dagar eru í settan fæðingardag! Ég náði líka að saxa aðeins á stíla/smásögu/ævintýra/prófa bunkann sem elti mig heim á föstudaginn og var ég einmitt að klára síðasta verkefni kvöldsins hérna rétt áðan. Á morgun bíða mín svo 50 stk af sagna- og lesskilningsprófum og fyrir klukkan 10 bætast 50 stk af orðskýringaprófum í nýjan bunka. Ekki má svo gleymta vinnubókunum sem elskurnar mínar skila til mín í vikunni og næstu viku. u.þ.b 100 stk allt í allt. Life is good.

Sá auglýsingu fyrir Wham og George Michael greatest hits. Held hún heiti 25. Alla vega, þá er Goggi í flottum bol í Wake me up myndbandinu - Choose life. Hugsa alltaf um Trainspotting þegar ég sé þessa auglýsingu. Steikt... eiginlega djúpsteikt bara.

Shout out dagsins fer til Guðjóns míns í París - Congrats my daaahling. París liggur við fætur þér eins og ódýr dyramotta. Lov jú longtæm.

22. nóvember 2006

Los internetos

Loksins tókst okkur að vinna úr internetvandamálum mínum.
Málið er að við vorum lengi búin að reyna að setja upp þráðlausa tengingu úr heimilistölvunni inn til mín og ekkert gekk. Reyndar gekk það í eitt skiptið en entist í svona 5 mínútur. Nú ber ég mikla von í brjósti að þetta samband haldist og er ég hálf hrædd við að slökkva á tölvunni. Nú veit ég hvernig Chandler og Joey leið þegar þeir fengu ókeypis klám og þorðu ekki að slökkva á sjónvarpinu!

Á föstudaginn er mánuður til jóla og aldrei þessu vant er ég búin að föndra jólakortin, langt komin með föndruðu jólagjafirnar og er að fara að baka smákökurnar næstu helgi! Svo komst ég líka að því að jólafríið mitt verður í raun jóla"frí" en ekki jóla"vinna eins og skepna þannig að ég verð þreyttari en fyrir fríið". Muy bueno.. eða eitthvað :Þ

Fer á námskeið um einhverfu á morgun - hlakka mikið til.

lifið heil - ég ætla að kíkja á eitthvað skemmtilegt

19. nóvember 2006

"Hver heldurðu að þú sért, Bastian? Bæjarfógetinn?!"

Ég fór í leikhús á föstudaginn á Herra Kolbert eins og ég minntist hér á og ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði séð brot úr því á N4 rétt fyrir frumsýningu og var með vissar efasemdir en hristi þær af mér eftir 10 mínútur af leikritinu. Þessir leikarar eru ótrúlegir, leikritið sjálft fyndið og örlítið átakanlegt um leið og það stuðar mann í endann. Mæli með þessari sýningu en það er víst bara sýnt fram að jólum. (já og fyrirsögn bloggsins er einmitt úr leikritinu)

Í gær fór ég svo í bíó á Bond og annan eins Bond hef ég ekki séð. Hann er svo mikill karlmaður að mann svimar bara. Ó já! Myndatakan er frábær, mér fannst sagan líka alveg ágæt (þó það truflaði mig pínu að þetta átti að vera forsaga sem gerðist samt í nútímanum.. hmm)og Bond-pían skemmtileg. Mæli með henni, en athugið að hún er 2 1/2 klst.

Er að passa litla frænda minn - bökum piparkökur á eftir, ú je!

16. nóvember 2006

ástarsamband mitt

Ég hef átt í leynilegu ástarsambandi undanfarna mánuði - við dún.
Þetta byrjaði allt saman þegar ég flutti norður og fór að vinna í 102 ára gömlu húsi. Það var stundum kalt þar inni. Ég hafði lengi ágirnst dúnskó líkt og Marían mín á og þegar tækifærið gafst skellti ég mér á ódýrt par. Tilfinningin var ómótstæðileg. Mér þóttu skórnir svo þægilegir að ég sofnaði með þá eitt kvöldið og þurfti að leita vel og lengi að þeim næsta dag. Þeir fundust vöðlaðir inn í sæng og teppi eftir langa leit.

En ég gat ekki látið staðar numið við skóna. Fyrir löngu síðan hafði ég gist hjá vinkonu minni í Danmörku og svaf þar með dúnsæng. Þar sem ég hafði þangað til einungis leyft gerviefnum nálægt mér var þetta skrýtin tilfinning. Ég vildi alltaf hafa sængina mína létta - fannst ég annars vera að kafna. En skyndilega breyttist allt. Nú vil ég hafa sængina mína sem þyngsta. Ég vil finna hvernig sængin ýtir mér ofnaí dýnuna og hleypir engu lofti nálægt mér. Ég var meira að segja farið að sofa með 1-2 rúmteppi til þess að þyngja gerviefna-sængina mína þar til ég ákvað að kaupa mér dúnsæng.

Í mánuð hef ég nú sofið með dúnsængina mína sem ég keypti í IKEA. Ég var með smá efasemdir um það hvort ég myndi á endanum vilja sofa með dúnsæng en ég ákvað að prófa þetta. Ég er ástfangin af sænginni minni. Þegar ég leggst til hvílu heyri ég brakið í sænginni, ég finn hvernig hún umlykur mig og hún er akkúrat nógu þung til þess að ég þurfi ekki að nota aukateppi. Hún er líka mátulega hlý.

Núna dreymir mig um þriggja laga dúnsæng sem ég veit að er til. Þá væri ég prinsessan á bauninni, með heysátu ofaná mér á hverju kvöldi og svæfi góðum, djúpum svefni. Auðvitað yrði ég að kaupa mér dúnkodda líka. Það þarf vart að taka það fram...

15. nóvember 2006

Heit fyrir Bond

Já krakkar,
það er eitthvað heitt við nýja bondinn - ljóshærður með klobbaglott og þú bara veist að hann er "up to no good". Væri alveg til í að vera bond-pían hans..
En, sem sagt, mig vantar bíó-félaga á Bond um helgina.. any takers?

Það heldur bara áfram að snjóa hérna. Fannst í gær eins og ég væri að kafna undan þessum snjó svo ég dúðaði mig upp og labbaði upp í bæ. 2Af hverju?" spyrja sumir sig - jú, út af hinu frábæra orðatiltæki "if you can't beat them - join them". Svo ég arkaði í Pennann og ráfaði innan um hillurnar en keypti svo ekki neitt. Frekar slappt.

Þarf að klára að fara yfir Animal Farm verkefni um helgina, fara á Herra Kolbert á föstudagskvöldið, horfa á X-factor sama kvöld (nemendur mínir eru í þættinum, elda á laugardaginn og reyna að sjá Bond... jesús.. hvenær á ég að klára jólagjafirnar??

13. nóvember 2006

Laugardagskvöldið, snjókoman og stílarnir

Jahá!
Partýið á laugardaginn var einstaklega skemmtilegt og vil ég þakka henni Hóu sérstaklega fyrir gestrisnina! Við vorum 10 sem vorum svo fræg að fara niður í bæ og tjútta lengur en hinir og við tókum Kaffi Akureyri með stormsveipi.
Frábært kvöld í alla staði og var ég ansi þreytt í gær eftir að hafa drattast heim þegar búið var að kveikja ljósin á Kaffi Ak.. sjaldan er maður jafn ljótur og akkúrat þá!

Er búin að jafna mig á veikindunum og var að spá í að skella mér í sund en það er bara brjáluð snjókoma og búin að vera í allan dag! Sundlaugin verður einhvern vegin köld af öllum þessum snjó.. held ég ;)

Sit við vinnuborðið mitt og hamast við að fara yfir stíla um Hr. Smith og Hr. Williams. Hlakka til að fara heim á eftir og hvíla mig aðeins meira...

10. nóvember 2006

Lazarus úr rekkju

Hejsan
er búin að vera lasin (og er reyndar ekki alveg full hress ennþá) svo ég hef lítið gert nema legið í bælinu, reynt að sofa þetta úr mér og drekka mikið af vatni.
Í dag drattaðist ég í vinnuna og hélt að ég væri bara hraust en fékk heiftarlegt svimakast og þurfti að flýja úr tíma í morgun - ekki besta tilfinning í heimi skal ég segja ykkur.

Helgin verður sennilegast mjög róleg en það er reyndar vinnupartý á morgun sem ég verð að mæta í ...

vona að þið hafið það betra en ég

1. nóvember 2006

Það er kalt í G11

Í dag ákvað veturinn að minna talsvert á sig - það er jú kominn 1. nóvember.
Þegar maður er að vinna að mestu leyti í 102 ára gömlu húsi er jú óhjákvæmilegt að það verði pínu kalt í stofunum, sérstaklega þegar það er -6 gráður á hitamælinum. Fyrsti tíminn minn var í hinni alræmdu stofu G11, en þeir sem gegnu menntaveginn í MA vita hvað einfalda glerið í gluggunum er næfurþunnt.

Sem sagt, það er kalt í vinnunni í dag.

Já og það var jarðskjálfti áðan. Ég fann ekki fyrir honum. Damn it.