25. janúar 2007

hugarró

Ég var að senda frá mér síðustu einkunirnar. Þungu fargi er af mér létt og mér er hreinlega illt í augunum eftir að hafa rýnt í ansi marga stíla, þýðingar og ritunarverkefni (sem í gamla daga hét allt bara stíll ;)

Framundan er helgin þar sem ég hyggst slappa talsvert af og í næstu viku fer lokafrágangur fram á undirbúningi næstu annar og hún byrjar svo á fullu á fimmtudaginn. Kominn viss spenningur í mann að byrja upp á nýtt, hreint excel blað fyrir einkunnir og ótaldir möguleikar á verkefnum, kennsluaðferðum og efnum (hehe).

Voða lítið að segja - er frosin í hausnum....

22. janúar 2007

24... again

Sá fyrsta þátt nýrrar syrpu af 24 í gær. Þar var nóg um blóð og pyntingartól og læti. Jack eins og niðurbrotin maður eftir 2 ár í kínversku fangelsi. Þegar svartnættið virtist ætla að grúfa yfir öllu reis minn maður upp og barðist. Flottur Bauer.

Vann eins og vinnusjúklingur um helgina og uppskar lítið annað en þreytu og er því hálf dofin í dag. Síðasta prófið er um það bil að hefjast og eftir það tekur bara við endalaus yfirferð.. er reyndar aðeins u.þ.b. hálftíma frá því að skila inn fyrstu einkununum... spennó ;)

Langar á sólarströnd, sandur, sjór og kaldir drykkir.... ó já

19. janúar 2007

Graskersbaka

Bakaði graskersböku í gær og fór með hana í skólann því ég er með próf í dag. Í dag er líka bóndadagur og afmælisdagur ;) ég er ekki að fiska kveðjur, bara tilkynna það að ég er orðin 27 ára. Púff!
Í dag er næst síðasta prófið mitt og síðasta er á mánudaginn en svo byrjar ný önn þann 31. janúar. Í millitíðinni er mikil frágangsvinna og undirbúningsvinna, ásamt fundum, ráðstefnum og fyrirlestrum.

M.A. vann útvarpsviðureign sína í Gettu Betur í gær og dróst á móti Verzló í sjónvarpinu föstudaginn 2. mars. Allir að fylkja liði og styðja gamla skólann sinn (þeir sem voru í MA ;)

17. janúar 2007

Langar setur...

Maður virðist ekki gera mikið annað en sitja þessa dagana. Ef maður er ekki að sitja yfir nemendum í prófi er maður að sitja við að semja próf eða sitja við að fara yfir próf. Þetta er ekki eins afslappandi og menn halda kannski :) Ég þarf að vera duglegri að hlaupa yfir götuna og skella mér á brettið þegar ég kem heim úr vinnunni. Í gær var bara svoooooo kalt, -16°C á mælinum heima og hrímþoka lá yfir bænum. Ekki beint hvetjandi ;)

Í dag sá ég sorgarfrétt á mbl.is - leikkonan sem lék Sally Spectra í Bold and the Beautiful er dáin :( hún var með magakrabbamein blessunin. Lengi lifi Sally!

ég sé fyrir endann á prófa samsetningu því síðasta prófið verður að fara í ljósrit í fyrramálið svo það klárast í dag. Þá er bara yfirferðin og yfirsetan eftir.... held ég sé að fá sigg á rassinn......

14. janúar 2007

Dorrit

Ég elska Dorrit.
Flestir sem þekkja mig vita að lengi hefur mér fundist Dorrit ein af flottari manneskjum á landinu og ekki bara fyrir klæðaburð og frábært bros. Viðtal Evu Maríu í sunnudags kastljósinu í kvöld sýndi mér enn og aftur hversu mikil snilld þessi kona er. Hreinskilni og einlægni eru orð sem mér detta í hug eftir að hafa horft á hana svara hverri spurningu á fætur annarri og jafnvel þegar kom að pólitískri spurningu (sem hún sagði að hún ætti ekki að ræða) svaraði hún samt og hikaði hvergi.
Dorrit er klassapía sem á alveg skilið að fá hrós og sýnir einmitt að það er ekki alltaf hversu mikið þú kannt heldur hvað þú gerir við það sem þú kannt.

13. janúar 2007

When you were young

You sit there in your heartache
waiting on some beautiful boy To...

to save you from your old ways

You play forgivness
watch it now , here he comes
he doesn't look a thing like jesus

but he talks like a gentleman
like you imagined
when you were young

Svo byrjar hið frábæra lag When you were young með The Killers. Þegar ég heyrði það fyrst þegar Sam's town kom út þurfti ég að halda niðri í mér andanum í smá stund. Það er bara of mikið að gerast í þessu lagi! En, fílaða í tætlur og hlustaði óendanlega oft á það í dag meðan ég fór yfir próf.

Talandi um próf, þá er mér búið að vera kalt á hægri hendinni í allan dag. Fyrst fannst mér þetta skrýtið því vanalegast verður mér bara kalt á henni ef ég er lengi í tölvunni (svokallaður músar-handar-kuldi) en ég var ekkert í tölvunni í dag... Svo fattaði ég það. Ég var búin að halda á rauðum penna í meira en 4 klukkutíma með afar takmörkuðum pásum. Ég er búin að vera heima í 2 tíma, ekkert gert með hendinni og mér er ennþá kalt. Spurning um heita sturtu?

11. janúar 2007

hugleiðingar í prófatíð..

exams and tests and things like that
are really rather rotten,
I'd rather fall in camel pooh
or eat my best friend's bottom!

góðar stundir

7. janúar 2007

Little did he know...

Ég fór á Stranger than fiction í gær og get alveg mælt með henni. Will Farrell fer á kostum og ég er sammála gagnrýnanda Fréttablaðsins að hægt sé að líkja þessu við það þegar Adam Sandler lék í Punch Drunk Love og Jim Carrey tók að sér Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Very nice.

Í dag þurfti ég að vinna ansi lengi og komst að því að ég er ekki þungt haldin af aga. Það er einfaldlega erfitt að halda einbeitingu og aga þegar maður les sömu setninguna 23 sinnum í röð með mismunandi villum. Þarf að taka hlé núna þar til eftir mat...

Nú eru bara 2 kennsludagar eftir og svo 2ja vikna próftörn þar á eftir. Það verður ágætt að ganga frá þessari önn. Ég veit hvað ég lærði og get nýtt áfram en ég veit líka hverju ég verð að breyta fyrir næstu önn. Merkilegt...

6. janúar 2007

Flickr myndasíða

Ég kom því loksins í verk að setja upp Flickr síðu. Bjössi minnti mig á þetta um jólin þegar við ræddum hin ýmsustu mál :) En, sem sagt, þá eru tenglar hér vinstra megin (næstum neðst) undir "myndir" þar sem hægt er að nálgast bæði gömlu Fotki síðuna mína og nýju Flickr síðuna. já eða þið getið smellt hér fyrir ofan ;)

5. janúar 2007

Árskort í ræktina og hjól í kaupbæti

Já,
nú er ég stoltur eigandi nýs hjóls! Fór í Átak áðan og ákvað að skella mér á árskort þar og viti menn, þeir buðu mér hjól í kaupbæti. Þeir voru reyndar búnir að auglýsa þetta eitthvað en ég hélt bara að þau væru búin. Svo nú á ég nýtt hjól :)

Ég hef ekki átt hjól í mörg, mörg ár nánast síðan ég átti mitt fyrsta hjól sem var appelsínugult og af einhverjum dularfullum ástæðum var afturdekkið alltaf loftlaust eftir einn dag. Þetta þýddi að hjólapumpan og bæturnar voru stanslaust á lofti og oft þurfti maður líka að reiða hjólið niður á BSO til að pumpa í dekkið "alvöru lofti". Þetta voru góðir dagar...

Helgin framundan - ætla að skella mér á Stranger than Fiction á morgun og eyða restinni af helginni í vinnu.. það eru sko próf framundan ;)

Shout out dagsins fer til mömmu minnar sem í dag er 49 ára gömul! Til hamingju með afmælið, elsku mamma mín!

2. janúar 2007

Nýtt útlit

Ég breytti örlítlu hérna á blogginu. Var að prófa hversu auðvelt "nýja" viðmótið hjá blogger er og verð að segja að það er mun notendavænna en hitt - svona fyrir okkur sem getum auðveldlega klúðrað html kóðum og svona ;)
Mér finnst líka betra að hafa tenglana og svona vinstra megin. Þá eru þeir ekki að trufla augað þegar maður les færslurnar.

Það er strax kominn 2. janúar. Sit heima og reyni að vinna í verkefnum sem ég verð að skila þegar skólinn byrjar aftur. Er samt komin með hugann eitthvert allt annað, eiginlega á næstu önn. Er strax farin að hugsa um skipulag ritunarverkefna, nýrra kennslubóka o.fl. o.fl. Verð að draga mig aftur að verkefnabunkanum ;)

Á morgun opnar Átak loksins aftur í nýju og stórglæsilegu húsnæði og ætla ég að nýta mér aðstoðuna þar til fullnustu. Er að spá í að kíkja í Fit pilates tíma og ná hlaupunum mínum upp í 5 km. og svo seinna á árinu ætla ég að þjálfa mig upp í 10 km. fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst.
Ég setti mér nú engin áramótaheit, enda ekki vön því. Hef samt ákveðið nokkra hluti sem ég ætla að gera á árinu:

*Kaupmannahöfn um páskana (búið að bóka flug ;)
*Ganga bæði á Vaðlaheiði og Súlur í sumar
*Ganga Laugarveginn í hópi góðra vina
*Hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst
*Klára mastersritgerðina mína og útskrifast í október
*Byrja að læra Portúgölsku

Þarna. Búin að setja þetta niður á "blað" og því öruggara að standa við þessi markmið mín!

1. janúar 2007

Another one begins

Fyrsti janúar tvöþúsund og sjö; 18 dagar í afmælið mitt, 11 dagar í fyrsta prófið í MA, 30 dagar í byrjun næstu annar. Merkilegt hvað tölfræðin grípur mann oft..

Átti sérdeilis góðan dag í gær, fyrir utan að ég var eitthvað mis í heilsunni. Ég byrjaði að elda um eitt leytið og náði að töfra fram kalkún með öllu tilheyrandi fyrir klukkan sjö og hann bragðaðist bara prýðilega (þó ég segi sjálf frá ;). Ég hef nú verið pöntuð í eldamennsku öll gamlárskvöld eitthvað frameftir ævinni. Þegar kom að því að sprengja henti ég 3600 krónum út um gluggann og horfði á fallegu kökuna mína klára sitt á mettíma. Það er ágætlega hreinsandi að sprengja árið í burtu, vitandi að næsta ár er handan við hornið.

í dag hef ég legið í einhverri pest en horfði bara á Lord of the Rings 1 og helminginn af 2 og dottaði þess á milli. Vona að heilsan hressist á morgun því ég þarf eiginlega að fara í vinnuna :/

Ég vil óska öllum gleðilegs nýs árs og vona að gærkvöldið hafi verið ljúft og gott (og samheldið? ;)