28. júní 2006

mið-vika

Var að koma heim eftir smá hlaupatúr í kringum tjörnina. Já, það var dagur 2 af 3 í þessari viku og mér tókst þetta aftur þó ég verði að játa að ég var lengi að drulla mér út um dyrnar. Það sem ég þurfti að sjá áður en ég sannfærðist um að ég þyrfti nauðsynlega að fara út var að ég horfði á What not to wear (eða Druslur dressaðar upp, hehe) og sá tvær píur í algjörum mínus út af útlitinu sínu. Ég nenni ekki að vera í þessum sjálfsvorkunnarpakka. Svo ég hundskaðist í útifötin, skellti spilaranum á upphandlegginn og hræddi allar endurnar á tjörninni með látum og tómatafésinu mínu.
Mér líður sjúklega vel akkúrat núna - er þægilega þreytt og er að spá í að splæsa í eitt freyðibað....mmmmmmm

26. júní 2006

Að læra eitthvað nýtt

Í dag lærði ég tvo nýja hluti um mig:
1) ég er með ofnæmi fyrir köttum
2) ég hleyp hraðar en ég hélt

Ofnæmið kom í ljós í vinnunni, þar sem ég er núna að leysa af kattamanneskju. Fljótlega eftir að ég kom fór ég að hnerra og horast öll (s.s. fyllast af hori). Ég var ekki alveg að fatta þetta en Agga benti mér á að líklega væri ég bara með ofnæmi. Ég þrætti eitthvað fyrir það (hraust og svona, aldrei fengið neitt ofnæmi) en ákvað samt að skipta um skrifborðsstól (það var nefnilega kattalykt af honum). Eftir 10 mínútur var ég hætt að hnerra og allt hor hvarf. Ég hlýt því að draga þá ályktun að ég sé með ofnæmi fyrir köttum, ekki satt?

Núna rétt í þessu kom ég inn eftir fyrsta almennilega hlaupatúrinn minn. Ég fjárfesti nýlega í skemmtilegri bók sem ég mæli með fyrir þær píur sem vilja "læra" að hlaupa eða einfaldlega hafa smá stuðning til þess að komast loksins í 5, 10, 20 eða 42 km vegalengdirnar í maraþonhlaupum.
Er skemmtilega þreytt, hlakka til að hlaupa aftur á miðvikudaginn

25. júní 2006

andvaka

get ekki sofið.
gerði þau mistök að sofna í sumarhitanum í dag - líkaminn hefur tekið þann svefn sem nætursvefn og leyfir mér ekki að hvílast í nótt. Þar sem ég lá hálfdormandi í dag, í sólskininu á sófanum heima; hurðin út á svalir opin í hálfa gátt og örlítil gola blés inn leið mér eitt andartak eins og ég væri stödd í Kanada. Þessa örfáu daga í ágúst áður en skólinn byrjaði og ég fékk að vera uppí sveit, yfir þrjátíu stiga hiti og lítið annað hægt að gera nema liggja kyrr eða sveifla sér rólega í hengirúminu.
Ég fæ stundum þessa tilfinningu þegar ég labba út úr Kringlunni, á neðri hæðinni og geng út í heitan sumardag í hálfrökkrinu undir bílastæðinu. Það myndast einhver molla - sambland af bílalykt, sól og grasi sem minnir mig á útlönd.
í vinnunni minnir lyktin í lyftunni mig á neðanjarðarlestirnar í London.

fyndið hvað lykt getur vakið upp ótrúlegustu minningar....

23. júní 2006

Emmpéþrír

Loksins ákvað ég að taka þátt í MP3-væðingunni og keypti mér lítinn spilara í gær. Eina ástæðan var reyndar sú að ég vil geta hlustað á tónlist þegar ég fer út að hlaupa (já, hlaupa!) og það er glatað að skokka með walkmaninn!
Ég splæsti samt ekkert í neitt dýra týpu - fann einn á 5000 kall í Hagkaup og það fylgdi svona ól fyrir upphandleggginn; alveg snilld. Ekki nóg með það heldur fylgdu líka 2 lög með spilaranum: My heart will go on með selnum og Barbie girl! Ég fékk nett krampakast yfir þessu og eyddi þeim út hið snarasta og setti Gnarls Barkley og Life Aquatic soundtrackið í staðinn.. beauty...

Í dag er auðvitað föstudagur, ætla að hitta Margot mína eftir vinnu og svo þarf ég að fara á bókhlöðuna á morgun - finna greinar fyrir MA ritgerðina mína... pleee..

21. júní 2006

Tjúttlaðipotturinn (a.k.a. súkkulaðipotturinn)

Góðar fréttir fyrir mig,
Ekvador er komið áfram á HM og mætir þar Englendingum 25. júní. Spurning hver gengur ósár í burtu frá þeirri viðureign en ég vona innst inni að Ekvador vinni - þá kemst ég nær súkkulaðipottinum ;)Pólland er dottið úr leik, Fílabeinsströndin og Japan virðast á sömu leið; Túnis gæti rifið sig upp en Spánn virðist öruggur áfram.
Alla vega tvö lið af sex í 16 liða úrslit - ekki slæmt :)

Ég fékk þær fréttir í vikunni að ég verði í mun meiri vinnu en ég hélt í haust, nefnilega fullri vinnu! En meira um það síðar....

Sól úti, sit inni með dregið fyrir gluggana... annars sé ég ekki á skjáinn....

ble

18. júní 2006

Það rignir látlaust á mig

Ég ætlaði að henda inn reiðipistli um rigninguna í gær en þá stytti allt í einu upp. Ég gat gengið um miðbæinn án þess að hafa áhyggjur af því að eyðileggja skóna mína, verða hundblaut og að hárið mitt tæki óvæntan kipp og magnaðist upp (líkt og á Monicu þegar þau fóru til Barbados).
Í morgun var ennþá þurrt og svei mér þá, sólin er að brjótast fram úr skýjunum.
Síðasta vika var afskaplega lengi að líða, mig langaði ekkert til að skrifa neitt hérna inn og flestir sem ég talaði við voru alveg sammála. Ég heyrði þá útskýringu frá mörgum að líklegast væri lægð yfir landinu. Já, já. Segjum það bara.

Þjóðhátíðardagurinn á að vera rosalega skemmtilegur dagur og allir að vera glaðir og prúðbúnir. Mér líður einfaldega ekki vel innanum svona margt fólk. Ég labbaði á vinnustofuna til Guðjóns og krakkanna á Garðastræti 4 og svo aftur heim. Fólk með barnavagna hélt að það ætti heiminn (og að vissu leyti snýst dagurinn um börnin) en það er óþarfi að leggja þeim þvert á gangveginn svo það myndist stíflur á 20 skrefa fresti. Ég eyddi því deginum heima hjá mér í tiltekt og saumaskap (jakkinn er alveg að verða tilbúinn) og ætla líklega að gera eitthvað svipað í dag.

Vona að hann hangi þurr ;)

14. júní 2006

Tilefni eða önnur efni

Hef verið einstaklega andlaus síðustu daga - það er að segja, ég finn ekki hjá mér þörf til að tjá mig hérna. Er búin að vera dugleg að hringja í fólk, hitta og spjalla. Svo er líka ekkert að frétta :)
Undanfarið hefur allt snúist um vinnuna, HM, saumaskap (ekki enn búin með jakkann) og viðreynslu við ræktina.

Heyrði í litlu systur í morgun - gott veður í Englandi þessa dagana.

Rigning úti.. aftur...

10. júní 2006

Há emm og saumaskapur

Svo að HM byrjaði í gær -með látum!
Þýskaland kom, sá og sýndi að þeir nenna ekki lengur að liggja í vörn og unnu Kosta Ríka 4-2! Ansi skemmtilegur opnunarleikur sem við í vinnunni gláptum á á milli verkefna. Seinni leikurinn var minna skemmtilegur og slökkti ég eiginlega á honum þegar Pólland fór að tapa. Ekvador vann 2-0 en ég er í þeirri óþægilegu stöðu að bæði þessi lið eru "mín lið" í súkkulaðipottinum ;)

Í morgun átti ég svo frí og ákvað að eyða deginum í saumaskap. Ég keypti um daginn efni í kjól og jakka og ákvað að byrja á jakkanum fyrst því hann virðist vera flóknari. Er ekki betra að byrja á flóknara stykkinu svo hitt virðist auðveldara? Ég er búin að sauma meirihlutann af honum saman en á eftir ermar og kraga (þess má geta að ég þurfti að taka upp 18 mismunandi "stykki" og mörg í fleirtölu.
Á meðan á þessu öllu hefur staðið hef ég haft auga með sjónvarpinu út af HM. Þetta er ávanabindandi helvíti. Leikur Englands og Paragvæ var hundleiðinlegur en samt skildu áhorf. Akkúrat núna er leikur Svíþjóðar við Trinidad og Tobago og mér sýnist stefna í markalaust jafntefli, tsk tsk! Ljungberg og Ibrahimovic eru samt svo sætir að það er alveg hægt að horfa á leiðinlegan leik með þeim.

Sunnudagurinn liggur fram undan- Esjuganga með Maríu Erlu og svo kaffi með Lisu eftir á... ansi gott

7. júní 2006

HM í knattspyrnu

Hún Lisa mín ákvað að efna til mikils súkkulaðileiks í tilefni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu! Við erum sex stúlkur sem tökum þátt og fengum úthlutað 6 löndum af handahófi. Mín lönd eru:
Túnis, Ekvador, Fílabeinsströndin, Spánn, Japan og Pólland.

Ef eitthvert þessara landa vinnur gullbikarinn þá vinn ég súkkulaðipottinn! Ég held að líkurnar séu kannski ekki mér hliðhollar en ég held þó í vonina að pólland fleyti mér eitthvað áfram. Áfram polzki!

5. júní 2006

Hvítasunnan

Þá er langri helgi lokið án nokkurra stórslysa - að minnsta kosti hjá mér ;)
Við Guðjón lögðum land undir fót eldsnemma á laugardaginn, þegar við brunuðum út úr bænum kl 07:30 um morguninn en þurftum þó að snúa við í mosfellsbænum því við höfðum gleymt veigunum okkar, Stoli flösku sem beðið var með eftirvæntingu í partýinu okkar seinna um kvöldið. Eftir smá öskur og pirring vorum við lögð aftur af stað út úr bænum og náðum að keyra til Akureyrar á fjórum tímum, sem okkar fannst mjög gott. Við nenntum ekki einu sinni að stoppa heldur höfðum með okkur samlokur sem við borðuðum á ferð. klassi.
Hið langþráða partý var eitt það frábærasta sem ég hef farið í og var ómetanlegt að fá mat eldaðan af Hólmar og aðstoðarmönnum hans, Þóa og Guðna, auk þess sem Eva Stína og Anders létu sjá sig alla leið úr Danmörku.
Takk fyrir sjúklega frábært kvöld elskurnar og muniði:
You have to be drunk to enjoy it

Eins og laugardagurinn var nú frábær þá uppskar ég eins og ég sáði og lá í bólinu mest allan sunnudaginn en harkaði þó af mér og hitti eitt flottasta barn sem ég hef séð, Óskar Smára. Krakkinn er alveg eins og mamma sín og ég get ekki beðið eftir að hitta hann aftur seinna.
Þegar ég náði að rétta úr kútnum eyddi ég kvöldinu með familíunni og hvíldi svo lúin bein langt fram á morgun.
Í dag brunuðum við svo heima á leið aftur og lentum í skemmtilegum kappakstri við húsbíl með einkanúmerinu "Jolli". Þetta stytti okkur stundir gegnum leiðinlegasta kafla á vegum Íslands, milli Blönduósar og Holtavörðuheiði.

Er að reyna að koma einhverju í verk en er ennþá með bílriðu og verkjar í hægri fótinn eftir keyrslu dagsins.
Ég vona svo sannarlega að aðrir hafi tjúttað jafn mikið og vel og ég!

1. júní 2006

Til hamingju, Eva!

Eva litla systir á afmæli í dag, 22 ára kjeeellling! Innilega til hamingju krúz ;)

Ég tók stórt skref í þá átt að gerast sófakartafla í gær þegar ég smellti mér á einn myndlykil frá digital ísland. Verður maður ekki að vera með í umræðunni í vinnunni?
Þessi myndlykill tók reyndar dýrmætan tíma frá mér og líka hluta af geðheilsunni, því eki einungis var ég að reyna að mixa eitthvað saman með skart-tengjum sem var ekki alveg að ganga, heldur var leiðbeiningarbæklingurinn líka svo illa þýddur og illa uppsettur að ég var að verða vitlaus.
Er að spá í að sýna þýðöndunum mínum bæklinginn og sjá hvað þær segja ;)
Sumarkvefið mitt er í fullum blóma, snýti grænu og gulu þannig að ekki er þetta ofnæmi, þó margir hafi bent mér á að kannski sé ég bara með svoleiðis.

Ég ætla norður um helgina að hitta gamla vini og lítið barn sem heitir Óskar Smári og er í sinni fyrstu Íslandsheimsókn og eyða svo restinni með familíunni.
Hlakka til, hlakka til, hlakka til!