31. október 2007

Oh, the weather outside is frightful...


Fæ þetta jólalag alltaf á heilann þegar það snjóar ótæpilega.

Í gær snjóaði all verulega en í morgun var slabbið alls ráðandi. Nú þegar ég lít út um gluggann er snjókoman með sterka innkomu og mér sýnist sem ég þurfi að sópa aftur af bílnum áður en ég kemst heim í dag!

Mér finnst þetta pínu notalegt, en ég hef samt áhyggjur af vaxandi þörf minni fyrir svefn! Um leið og það fer að dimma eitthvað af viti og kuldinn eykst þá vil ég bara borða kjöt og kartöflur og sofa í minnst 10 tíma á dag... sem er fáránlegt ;)

Ég keypti mér nóvemberkaktus í Blómavali um helgina og sit nú spennt og bíð eftir öllum blómunum sem ættu að springa út fljótlega - það er nú 1. nóvember á morgun!

Já og það er hrekkjavaka í dag þannig að Happy Halloween!!

30. október 2007

Stjörnuspá dagsins á mbl.is

Steingeit: Sköpunarorkan flæðir! Þú átt þína Mary Poppins stund þar sem "matskeið af sykri" mun virkilega hjálpa "meðalinu niður". Þetta er rétti andinn!

26. október 2007

Dúndur

Ég held því fram (og ekki reyna að telja mig ofan af því) að þetta sé eitt flottasta lag sem samið var árið 1982 þó lengi væri leitað!



B-E-A-Utiful!

25. október 2007

Lazarus vinur minn

Ég er búin að vera lasin síðan um helgina, mismikið reyndar en alltaf þegar ég held að mér sé að batna þá versnar mér :/ Í dag er ég reyndar nokkuð hress - vinna á morgun er markmiðið :)

Ég verð að segja að niðurstöður könnunarinnar koma mér ekki á óvart, Latté hefur lengi vermt hjarta kaffiunnenda þó mér finnist allir drykkirnir sem ég setti þarna mjög góðir. Svo tengi ég líka vissa drykki við vissar manneskjur og staði.
Anna Ey er t.d. Latté
Lisa er Frappó
Cappucchino minnir mig bara á Kanada og allan tímann sem ég var þar (French vanilla cap var drykkur ársins ;)
Svart minnir mig á Reykjavík og strætóferðirnar upp í Árbæ þegar ég vann hjá 365...

Ég er enn að velta því fyrir mér hvað næsta könnun skuli snúast um... fylgist með

22. október 2007

Gulur, rauður, grænn

Ég fór í regnbogamessuna í gær í Akureyrarkirkju.
Þetta var ótrúlega falleg stund og gaman að sjá hversu margi mættu. Stúlknakór Akureyrarkirkju á líka hrós skilið fyrir fallegan söng - væri alveg til í að fara á tónleika með þeim :)

Aðalsteinn og krakkarnir í ungliðahreyfingu Samtakanna 78 stóðu sig líka með prýði en sú sem kom mér mest á óvart var Guðfríður Lilja en hún átti hugvekju kvöldsins. Einlægni er eina orðið sem mér dettur í hug.

Það er góð tilfinning að styðja við bakið á samkynhneigðum og finna hversu margir eru sama sinnis. Það hlýtur að vega upp á móti þeim þröngsýni sem alltaf þurfa að eyðileggja allt - er það ekki?

19. október 2007

Lisa ROCKS!

Ok,
hvet ykkur til að fara inn á síðuna hennar Lisu Marie og lesa um búðarferðina hennar í gær. Hún er snillingur ;)

18. október 2007

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt

Vissuð þið að:

- svitabönd nefnast líka svitagjarðir
- gong nefnast einnig bomböld
- skíðagalla er hægt að prjóna og hekla
- til eru samlokulampar (og nei, það eru ekki ljósabekkir)

Vinnan mín er endalaus uppspretta gagnlegs fróðleiks

15. október 2007

Iran so far

Þetta myndband er uppspretta gleði minnar þessa dagana! Horfi á þetta minnst einu sinni á dag.

svo er hann Andy líka sætur ;)

14. október 2007

Sunnudagsmorgun

Vaknaði kl. 7:30 við litla rödd við rúmstokkinn sem heimtaði barnaefni. Ágúst Óli var s.s. í pössun og nennti ekki að sofa lengur! Þetta er snilldin við það að vera með sjonvarp inni hjá sér - þú getir legið þarna og hlustað á teiknimyndirnar en þarft voða lítið að taka þátt. Very nice :)

Er í framkvæmdum í dag - heita- og kaldavatns rör eru viðfangsefnið. Ég verð sífellt bjartsýnni á að ég geti flutt inn í desember. Einhver sagði þó við mig að líklegast fengi ég lykilinn í jólagjöf og flytti því ekki inn fyrr en í fyrsta lagi á jóladag :/

Ég sá að það er margt til að gleðja sig yfir á rúv á næstu dögum. Í kvöld hefur göngu sína dönsk spennuþáttaröð um morðrannsókn sem spannar 20 daga og auðvitað er 1 þáttur = 1 dagur. Töff.
Í kvöld er líka nútímagerð á leikriti Shakespeare Snegla tamin með Shirley Henderson (Jude í Bridget og moaning Myrtle í Harry Potter myndunum) og Rufus Sewell (leikur yfirleitt vonda gaurinn, t.d. count Adhemer í Knight's Tale) í aðalhlutverkum.
Á þriðjudaginn er svo Pétur Ben söngvaskáld og miðað við auglýsinguna (sem var sýnd allt of oft í gær) þá verður það eyrnakonfekt.

Annars hljómar þetta orð, eyrnakonfekt, frekar viðbjóðslega. Ég sé alltaf fyrir mér að fólk troði súkkulaðimolum í eyrun á sér... oj bara!

Vona að helgin hafi verið ánægjuleg - mín rann ljúflega áfram

11. október 2007

Feis ársins

Stórundarlegir hlutir gerðust í dag.

Svo virðist sem að ekkert hafi gerst í hinum stóra heimi eftir klukkan þrjú í dag. Engar fréttir af stríði. Engar fréttir af hungursneyð. Engar fréttir af bílslysum, umferðarteppum eða kaupum og sölu hlutabréfa. Jafnvel landsbyggðin var tíðindalaus.

Miðja alheimsins færðist all skyndilega að tjarnarbakkanum og fjórum einstaklingum þar með bros á vör og að tröppum íbúðarhúss þar sem átta einstaklingar með skeifu og samanherptar varir stóðu í kuldanum.

Það sem mér fannst skemmtilegast við þetta allt saman var í Kastljósinu þegar Svandís benti á þá staðreynd að "Sjálfstæðisflokkurinn beið í 12 ár, í 12 ár eftir að komast til valda, talandi um það allan tímann að það þyrfti að koma glundroðanum frá og taka upp eitthvað nýtt, og 17 mánuðir dugðu þeim til að steyta á skeri".

Feis ársins, dömur mínar og herrar.

Risið úr rekkju

Ég lagðist í veikindi á mánudagskvöldið en hef risið upp að nýju. Ég hef tekið eftir því að með aldrinum leggjast vægari pestir aðeins þyngra á mann. Nú er ég hvorki hundgömul né gamalreynd en mér finnst ekki gaman að leggjast í rúmið fyrir smá hita, máttleysi, ógleði og almenna vanlíðan. Í den tid harkaði maður allt af sér, mætti í vinnu með 39 stiga hita og brosti bara. I'm getting weak...

Ég komst líka að því að það er býsna óhentugt að vera ein heima lasin. Þegar ég bjó í Reykjavík var hann Guðjón yfirleitt heimavið, fór í búðina og keypti handa mér eitt og annað. Þegar ég flyt á ég eftir að þurfa að staulast sjálf í búðina, hundveik eflaust, til að splæsa í eins og einn Gatorade eða Powerade, svona til að líkaminn þorni ekki upp. Ótrúlegustu hlutir sem maður pælir í þegar maður liggur og getur ekki sofið...

Sólin er að ná í gegnum skýin - lítur út fyrir gott veður í dag

7. október 2007

númer fjögurhundruð fjörtíu og fimm

þetta er víst fjöldi færslna á þessu bloggi frá upphafi... minnir að ég hafi byrjað á þessu bloggi í september '04 svo það er þriggja ára um þessar mundir.. ekki slæmt það..
Lengi vel hét það "fréttir úr 101", fékk svo stuttlega nafnið "fréttir úr 600", þá kom "framhaldslífið" og loks náði orðið brainfart tökum á mér og fékk þetta blogg því íslenskuðu útgáfuna "heilaprump". Oftast er þetta bara raus í mér um hitt og þetta, varla nokkra visku að finna en mér finnst þetta gaman.

Síðan á fimmtudaginn finnst mér hafa liðið mörg ár, aðallega vegna þess að ég var í lotu í réttindanáminu mínu og náði ég að innbyrða heilmikinn fróðleik um sálfræði, taka eins og eitt próf (35%) og skila hópverkefni um viðhorf okkar til menntunar (7%). Á morgun byrjar svo enn ein vikan - þeim fækkar sem eftir eru af árinu.

Ég ætlaði að kaupa mér ís áðan en endaði með heitt kakó. Ég ætlaði að vera þögul í kvöld en lenti í skemmtilegum samræðum í Pennanum. Stundum tekur lífið óvænta stefnu og verður yfirleitt meira spennandi fyrir vikið.

Ég mæli með lagi Danielson sem heitir Did I step on your trumpet? og ómar í bakgrunni þessarar kynningar...

3. október 2007

1. október 2007

SuperBad trailer

Skylduáhorf fyrir aðdáendur dónahúmors!

Takk fyrir góða Reykjavíkurferð - kiss kiss