14. apríl 2007

Föstudagurinn 13

Ég er, að ég held, ekki mjög hjátrúafull en dagurinn í gær fékk mig til að hugsa aðeins um ógæfutöluna 13 og þá sérstaklega þegar föstudagur er 13 dagur mánaðarins.
Ég vaknaði frekar seint því ég svaf illa um nóttina og ákvað að vera fín (þ.e. ekki í buxum ;). Ég skellti mér því í pils og jakka, henti hárinu í teygju og spennur og fór svo í stígvél með smá hæl til að vera aðeins stærri. Eftir að ég var búin að labba í Sjóvá, bankann og komin í vinnuna fannst mér hægri sólinn eitthvað sleipur (datt næstum því á ganginum í Gamla) og viti menn: tappinn var farinn undan hælnum! Ég snaraði mér í hælaskóna sem ég geymi í vinnunni og hélt ótrauð áfram, fór yfir verkefni, sat á fundi og kenndi svo krökkunum mínum. Nú ég þurfti að fara heim í einhverjum skóm og þessir virtust betri en hinir (því nú var komin hellidemba á Akureyri!) en ég ákvað að skella mér í bæinn fyrst. Eitthvað finnst mér vinstri skórinn orðinn hávær þegar ég kem á hellurnar í göngugötunni og jú jú: tappinn var farinn og ég gekk á járnpinnanum!

Nú spyr ég, lesendur góðir, er eðlilegt að fara með tvö pör af hælaskóm á sama deginum? Tilviljun eða óheppni föstudagsins 13?

(þess má geta að allt annað gekk mjög vel þennan dag ;)

Engin ummæli: