14. apríl 2008

Besti vinur

Um næstu helgi verð ég viðstödd giftingu besta vinar míns.
Lengi vissi ég ekki almennilega hvað "besti vinur" í rauninni var. Ég hélt ég vissi það en var í raun grunlaus. Mér finnst líka alltaf hálf kjánalegt að tala um einhvern sem besta vin - finnst ég komin í leikskóla eða núll bekk frekar en að vera nánast orðin þrítug.

Besti vinur minn var búinn að vera vinur minn í mörg ár en varð bestastur (svo ég dett í leikskólagírinn aftur) þegar við ákváðum að leigja saman íbúð fyrir næstum 4 árum. Mér hefði aldrei þá dottið í hug að ég ætti eftir að tengjast honum svona sterkum böndum, já eða þykja svona óendanlega vænt um hann. Þessi tvö ár sem við bjuggum saman lærði ég meira um sjálfa mig en mörg ár þar á undan.

Þegar ég svo flutti aftur norður fór hann til Parísar en símafyrirtækin okkar græddu heldur betur því það leið nánast ekki sá dagur að ég hringdi ekki í hann, oft bara út af einhverju sem ég las eða sá í sjónvarpinu og fannst fyndið af því það tengist okkur á einhvern kjánalegan hátt. Hann kom svo heim til Íslands aftur í fyrrasumar en ástæðurnar voru ömurlegar því hann greindist með sjúkdóm sem mun fylgja honum alla ævi. Ég hef sjaldan verið jafnreið á ævinni eða fundist lífið jafn ósanngjarnt og þá. Það eina jákvæða við þetta var að símreikningurinn minn snarlækkaði, enda ódýrara að hringja milli landshluta en heimshluta.

Í dag er hann svo fluttur til Belgíu svo Síminn sér fram á góða daga og gróða fyrir hluthafa. Mér finnst erfitt að hafa vini mína svona langt í burtu - hluti af hjartanu fer nefnilega með þeim.

En á föstudaginn ætlar hann að gifta sig og ég fæ að vera með honum og manninum hans. Og það er meira virði en allt annað.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Uss, þið ættuð ekki að styrkja Símann svona mikið, skype er málið!

Falleg færsla og verður ábyggilega frábært helgi!

Til lukku allir! Brúðgumar, fjölskyldur, bestustu vinir o.s.frv.

Nafnlaus sagði...

Það er greinilega gott að vera vinur þinn Lára mín! Þú hugsar fallega um fólkið þitt.
Helgin verður örugglega ofur-yndisleg! Tek undir með síðasta ræðumanni, Til lukku allir!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með besta vininn, vona að helgin verði yndisleg í alla staði :)

Nafnlaus sagði...

Vá var hann að gifta sig? En æðislegt! Já ég hef oft hugsað til ykkar sem krútasta besti vinur par og þið eru bara will and grace!! En mér er sammála önnu... skype er málið!

Það er frábært að heyra hvað það gengur vel hjá honum og þú verður að muna líka að mér þykir líka óendanlega mikið vænt um þig því þú ert bara æðisleg vinkona og ég tel þig sem ein að mína góðastar! ;-) Var þetta ekki Líslenskt? :-)