10. júní 2008
...
Ég byrjaði að blogga þegar ég flutti til Kanada, fyrir nær 6 árum síðan. Ég bloggaði fyrir sjálfa mig og fyrir vini og vandamenn heima á Íslandi og hélt þannig niðri himinháum símreikningum, auk þess sem mér fannst gaman að deila með öðrum því sem fyrir augu bar.
Þegar ég kom heim tók ég mér frí frá blogginu en byrjaði svo aftur þegar ég flutti til Reykjavíkur. Þá bloggaði ég áfram fyrir sjálfa mig og svo vini og vandamenn sem staddir voru erlendis eða hér heima á Akureyri.
Þegar ég flutti svo aftur hingað fyrir nær 2 árum hélt ég áfram að blogga, nú lítillega fyrir sjálfa mig en aðallega fyrir vini mína sem ekki voru á Akureyri.
Í dag er ég ekki að blogga fyrir neinn lengur. Svo það er komið nóg. Engin dramtík - hef bara voða lítið að segja. Ég vil líka frekar hringja í fólk eða kíkja í heimsókn :)
Takk fyrir fallegar og oft á tíðum stórskemmtilegar athugasemdir gegnum árin -
knús og kram,
Láran
2. júní 2008
Eva "litla" systir
28. maí 2008
gobbeldigook
Voruð þið annars búin að fatta að maí er alveg að verða búinn? Það mætti reyndar ætla, miðað við hitabeltisloftslagið hér á 7. hæðinni, að það væri miður júlímánuður. Hver trúir því að það sé 18-20 stiga hiti hérna dag eftir dag? Klöppum fyrir öfugum hæðum/lægðum sem skófla heita loftinu til okkar!
Þetta hitabeltisloftslag er að gera út af við skapandi hugsun hjá mér svo ég læt staðar numið.
jú annars, takk fyrir öll fallegu kommentin varðandi Óliver ;)
20. maí 2008
14. maí 2008
Babell
4. maí 2008
Pleh
Er í andleysi ársins, þ.e. fæ alltaf leið á blogginu mínu annað slagið og er í þeim gír núna. Verð samt að deila því með ykkur að ég fór á tónleika með Svavari Knúti á Græna Hattinum 1. maí og skemmti mér stórkostlega. Útilegulag Gunnars í Krossinum og baráttulagið Mengum Ísland hafa hljómað í huga mér undanfarna daga.... you had to be there ;)
Ég kíkti líka á Jökul Bergmann og hann er algjört krútt. Gaman að sjá mumma í pabbaleik, hehe.
Nú er Óliver líka orðin 3ja vikna og ég ætla að kíkja á hann í vikunni - set þá örugglega nýja mynd af kvikindinu hérna inn. Hlakka til að sjá hvað hann er orðinn stór og hvort hann er ennþá jafn frekur á mat!
Safnadagurinn var í gær og afrekaði ég að fara í fyrsta sinn á bæði Smámunasafnið og Iðnaðarsafnið. Á því fyrrnefnda sá ég flotta heimildamynd um Sverri Hermannsson sem verður sýnd seinna á árinu á rúv - ekki missa af henni því þetta er hörku kall með ótrúlega ævi að baki.
Á Iðnaðarsafninu sá ég svo svart á hvítu hvað Akureyri hefur í raun breyst mikið síðustu 50-60 árin. Ég fann líka 3 myndir af verkstæði langa afa míns, sem svo skemmtilega vill til að ég bý í núna. Mæli með þessu - ótrúlega hollt eitthvað fyrir mann.
Nú ætla ég að sigla inn í sunnudaginn með bros á vör og hugsa um að dansa - hvað er betr' en að dansa?
28. apríl 2008
Everyday People
Muna fleiri eftir þessari snilld? Elskaði þetta lag á sínum tíma og finnst það ennþá flott ;)
Tileinka lagið Mumma og Söru sem eignuðust lítinn dreng í nótt - til lukku mín kæru!
21. apríl 2008
Óliver
Mummi og Sara fóru með mér í gær að kíkja á tvo rakka sem ég mátti velja á milli. Þessi var mesti töffarinn, enda étur hann nánast allt frá systrum sínum og bróður en örlög okkar beggja voru innsigluð þegar ég hélt á honum og hann pissaði á mig! Þvílíkur klassi að merkja sér eiganda sinn ;)
Ég fæ hann formlega afhentan í júnílok því konan er svo elskuleg að geyma hann aðeins lengur fyrir mig svo ég geti sinnt honum vel í sumarfríinu. Ég fæ samt að fá hann í „aðlögun“ í júnímánuði :)
Þá er bara að finna búr, skálar, ól, hundaöryggisbelti og allt tilheyrandi! Er einhver að losa sig við stórt hundabúr?? ;)
14. apríl 2008
Besti vinur
Lengi vissi ég ekki almennilega hvað "besti vinur" í rauninni var. Ég hélt ég vissi það en var í raun grunlaus. Mér finnst líka alltaf hálf kjánalegt að tala um einhvern sem besta vin - finnst ég komin í leikskóla eða núll bekk frekar en að vera nánast orðin þrítug.
Besti vinur minn var búinn að vera vinur minn í mörg ár en varð bestastur (svo ég dett í leikskólagírinn aftur) þegar við ákváðum að leigja saman íbúð fyrir næstum 4 árum. Mér hefði aldrei þá dottið í hug að ég ætti eftir að tengjast honum svona sterkum böndum, já eða þykja svona óendanlega vænt um hann. Þessi tvö ár sem við bjuggum saman lærði ég meira um sjálfa mig en mörg ár þar á undan.
Þegar ég svo flutti aftur norður fór hann til Parísar en símafyrirtækin okkar græddu heldur betur því það leið nánast ekki sá dagur að ég hringdi ekki í hann, oft bara út af einhverju sem ég las eða sá í sjónvarpinu og fannst fyndið af því það tengist okkur á einhvern kjánalegan hátt. Hann kom svo heim til Íslands aftur í fyrrasumar en ástæðurnar voru ömurlegar því hann greindist með sjúkdóm sem mun fylgja honum alla ævi. Ég hef sjaldan verið jafnreið á ævinni eða fundist lífið jafn ósanngjarnt og þá. Það eina jákvæða við þetta var að símreikningurinn minn snarlækkaði, enda ódýrara að hringja milli landshluta en heimshluta.
Í dag er hann svo fluttur til Belgíu svo Síminn sér fram á góða daga og gróða fyrir hluthafa. Mér finnst erfitt að hafa vini mína svona langt í burtu - hluti af hjartanu fer nefnilega með þeim.
En á föstudaginn ætlar hann að gifta sig og ég fæ að vera með honum og manninum hans. Og það er meira virði en allt annað.
9. apríl 2008
Out with the old, in with the new
út með landsbyggðarfyrirlitninguna og inn með eitthvað nýtt.
Ég er loksins komin með annan fótinn í íbúðina mína! :) Er búin að sofa þar þrjár nætur og fataskápurinn þar tekinn við af litla ljót sem ég hafði áður og í gær dröslaði ég sjónvarpi og spilara yfir svo ég gæti horft á eitthvað skemmtilegra en litinn á veggjunum ;)
Málið er að rafvirkinn á eftir að koma og tengja rafmagnið í stofunni og ég á eftir að skella símanum og internetinu í samband svo svefnherbergið og baðið eru uppáhaldsherbergin mín þessa dagana ;)
Þetta kemur samt allt saman og krúttlegt að labba hálfsofandi yfir til mömmu og pabba í morgunmat.
Þið megið því búast við kaffiboðum og spilakvöldum og alls konar á næstunni og hver veit nema ég splæsi í eitt stykku Eurovision partý?
3. apríl 2008
Landsbyggðarfyrirlitning?
Orkuveitan selur gömul líkamsræktartæki
Orkuveita Reykjavíkur er að selja notuð líkamsræktartæki.
Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyritækið keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni.
„Þegar við fluttum yfir í núverandi húsnæði var gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og voru keypt notuð tæki. Síðan var gerður þjónustusamningur við World Class sem sá um aðstöðuna. Fyrir nokkru ákvað World Class síðan að þessi tæki væru ekki boðleg fyrir sýna kúnna þannig að þeir tóku þetta yfir í heild sinni og fylltu stöðina af sínum tækjum," segir Sigrún en í kjölfarið var gömlu tækjunum hent út.
Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.
Því geta einstaklingar ekki nælt sér í einstök tæki en listinn er nokkkuð langur. Þar má sjá kálfavél, fótakreppur, kviðvélar og tvo ljósabekki.„Nei einstaklingar geta ekki nælt sér í ljósabekk hjá okkur. Það er bara annaðhvort allt eða ekkert."
Sigrún segist vonast til þess að aðilar úti á landi geti nælt sér í tækin og byrjað að æfa sem fyrst. „Það er það sem skiptir máli."
Hvað finnst ykkur, lesendur kærir?
27. mars 2008
Ljúfleikinn
Fyrir viku síðan átti Eva Stína vinkona mín sitt annað barn, yndislegan dreng sem hefur hlotið nafnið Hjálmar Snær. Þau búa í Kaupmannahöfn þar sem hún kynntist manninum sínum, Anders. Fyrst hugsaði ég bara um það hversu sjaldan ég myndi hitta þau, hvað það væri erfitt að vera svona sitt í hvoru landinu en svo ákvað ég að ég væri nú bara ansi heppin að þekkja þau yfir höfuð!
Einbeita sér að því góða, fólkið mitt - það er lífsmottóið þessa dagana... :)
13. mars 2008
The return of the Lára
London var frábær, eins og alltaf. Komst að því að það er alveg sama hvernig veðrið er, hversu lengi maður þarf að bíða eftir lestinni, hversu margir dónalegir Lundúnarbúar rekast utan í mann og ryðjast framfyrir mann þá finnst mér borgin yndisleg.
Ég fór í fyrsta sinn í leikhús þarna úti - söngleikurinn MAMMA MIA! sem reyndist vera tær snilld! Abba lögin hljóma ennþá í huga mér, en núna tengd leikurunum og atriðum sem voru frábærlega útfærð. Get varla beðið eftir myndinni sem kemur út núna í sumar :)
Ég fór líka í fyrsta sinn í London Eye og fann reyndar nett fyrir lofthræðslu en bara á leiðinni upp. Ég var líka að asnast til að horfa beint niður - kjánaprik!
Að sjálfsögðu fylgdi smá verslun með þessu öllu saman og er ég ánægðust með myndavélina sem ég skellti mér á. Verð að hafa góða vél í reisunni minni í sumar!
Er núna að hamast við að klára að þýða landbúnaðarsamninginn og veit nú ýmislegt um grænmeti og ávexti sem ég vissi ekki áður og hefur Orðabankinn komið mér sífellt á óvart með Matarorðasafninu sínu.
Með kveðju af sjöundu hæðinni
6. mars 2008
4. mars 2008
Gröndal
Ég er búin að vera í blogglægð - finnst betra að segja ekkert en að búa eitthvað til úr engu. Ég er á leiðinni til London á föstudaginn svo ég bið núna um gott veður á fimmtudaginn því þá þarf ég að fljúga suður ;)
Þessa dagana læri ég allt um landbúnaðarafurðir, sérstaklega þær sem fást í Kanada og eru eða gætu verið fluttar hingað inn. Vissuð þið að til eru Buskabaunir?
19. febrúar 2008
Enn um kraftaverkin
18. febrúar 2008
Fortíðin
16. febrúar 2008
Gettu betur klúður
Í spurningunni um kraftaverkið þegar Jesú mettaði fjöldann var beðið um fjölda manna (5000) og hvað hefði verið borðað, skv. Lúkasar guðspjalli. Klárlega stendur í biblíunni að það hafi verið 5 brauð og 2 fiskar. Kvennaskólinn svaraði báðum þessum atriðum rétt en Páll Ásgeir, dómari og spurningahöfundur sagði að það hefðu verið 5 fiskar og 2 brauð og því fengu þau ekki stig.
Þetta þarf að leiðrétta því Kvennaskólinn hefði, með þessu stigi, unnið áður en keppnin fór í bráðabana. Tók einhver annar eftir þessu??
15. febrúar 2008
Brussel
-Manneken Pis eða Peðlingur piss er eitt frægasta kennimerki borgarinnar og hægt að kaupa alls kyns minjagripi með drengnum, m.a. penna (átti svoleiðis fyrir 12 árum).
-Samkvæmt óstaðfestum heimildum rignir að meðaltali 217 daga á ári í Brussel
-Neðanjarðarlestakerfið í Brussel er einungis síðar 1976 þó svo að premetro hafi verið starfrækt frá 1968.
-Brussel er "tvítyngd borg" (flæmska og franska) og það má sjá glöggt á götuskiltum borgarinnar. Þó eru útlendingar um fjórðungur íbúa borgarinnar og flestir þeirra tala ensku eða frönsku sín á milli.
-Belgískar vöfflur eru jafnfjölbreyttar og annað. Vaffla í Brussel er yfirleitt borin fram með flórsykri eða rjóma og stundum súkkulaði en hún er einnig notuð sem eftirréttur.
Ástæða þessara mola? Minn ástkæri Guðjón er að flytja til Brussel til að vinna hjá sendiherranum þar. Hans verður sárt saknað. Love you longtime Jacks...
5. febrúar 2008
Þankar um heimilistæki
Mig langar ofsalega mikið í svona hræivél. Þetta er Kenwood Patissier vélin og hjartað slær í alvörunni aukaslag þegar ég sé hana. Kemur kannski ekki á óvart að mig langar í rauðu týpuna?
Annars hef ég mikið hugsað um heimilistæki undanfarið, aðallega vegna þess að mig vantar þau nokkur. Ég þarf að kaupa mér ryksugu. Ég þarf líka að kaupa mér moppu og fleira og langar í Magnaða moppuskaftið sem var að hækka greinilega, humph! Kostaði aðeins minna fyrir hálfum mánuð síðan! Mig vantar líka brauðrist og hraðsuðuketil og Martan í mér er búin að finna 2 ristar en ketillinn lætur bíða eftir sér. Enda eflaust með pott á helli og bölva mér í hvert skipti fyrir að vera nú ekki búin að drullast til að sætta mig við eitthvað á tilboði.
En þurfum við öll þessi tæki? Ég þekki 1 par sem á pizzaofn og virkilega notar hann, 2 pör sem eiga og nota ísvélar en poppvélar, raclette sett, súkkulaði fondú-pottar (og gosbrunnar, n.b.)ásamt hinum ýmsu matvinnsluvélum standa yfirleitt rykfallin inni í skáp og sjá sjaldan dagsbirtuna.
Nú spyr ég ykkur: hvaða tæki býr í skápnum hjá ykkur sem aldrei eða sjaldan er notað?
31. janúar 2008
Bylur
Loksins kom óveðrið til Akureyrar! Ég beið og beið og vonaði en aldrei varð veðrið nógu leiðinlegt til að hægt væri að kalla það vetrarveður. Í morgun beið mín fjall af snjó á bílnum og annað fjall beint fyrir framan hann. Hmm. Í fyrsta sinn efaðist ég um getu litla Aygo en svo mundi ég eftir Top Gear Winter Olympics þar sem þeir fóru í Hokkíleik með bílana og ég tók gleði mína á ný. Fyrst þeir gátu gert það í Lillehammer í Noregi þá gæti ég komist í vinnuna á Akureyri, Íslandi!
Götur bæjarins höfðu allar verið ruddar svo ekki var erfitt að komast upp að Borgum en þar tók annað við. Búið var að ryðja litlu plönin en ýtan var akkúrat í aðreininni svo ég ákvað að leggja bara á stóra planinu. Big mistake! Þar var ekkert búið að ýta og lenti ég því í vægast sagt skemmtilegum hasarakstri þar sem ég vonaðist til að sleppa án þess að festa mig og verða mér til skammar! Ég hló frekar mikið þar sem ég rásaði um og komst loks út af planinu aftur og framhjá ýtunni.
Nú bíð ég bara eftir frostinu mikla sem á víst að skella á okkur á laugardaginn. Best að kaupa Swiss Miss og baka skúffuköku.
30. janúar 2008
Kom mér svo sem ekki á óvart
82% Barack Obama
80% Hillary Clinton
80% Bill Richardson
78% Chris Dodd
78% John Edwards
77% Dennis Kucinich
76% Joe Biden
72% Mike Gravel
41% Rudy Giuliani
35% John McCain
29% Mitt Romney
26% Mike Huckabee
19% Tom Tancredo
18% Ron Paul
17% Fred Thompson
2008 Presidential Candidate Matching Quiz
28. janúar 2008
25. janúar 2008
Óveður og fleira
Hér kom örlítill vottur af leiðindaveðri en ekki nóg til að hægt sé að kalla það neitt. Þetta náði ekki í köttinn í Nesi, eins og einhver mismælti sig víst! Nú er nefnilega búið að lofa/hóta óveðri hér 3svar sinnum með stuttu millibili en aldrei verður neitt úr því! Ég heimta því alvöru, íslenski óveður hér á Akureyri þannig að enginn komist neitt um bæinn, nema þá helst björgunarsveitin, en þeir mega bjarga mér hvenær sem er ;)
Hafið það sem allra best um helgina
p.s. Litla stúlkan þeirra Ingu og Einars hefur hlotið nafnið Valgerður Telma :)
22. janúar 2008
Decisions, decisions
Ástæðurnar eru nokkar en þó er helst að ég tel mikilvægara að klára MA ritgerðina mína og á meðan ég er í öðru námi og fullri vinnu þá tekst það ekki. Sálin er líka búin að vera ansi þreytt núna síðasta hálfa árið og ég held að hún þurfi aðeins frið. Hann fæ ég ekki eins og staðan er í dag.
Sumum ykkar á eftir að finnast þetta kjánalegt og það er allt í lagi. Ég er sátt og það er það sem skiptir mig mestu máli.
Markmið ársins eru því breytt:
-klára MA-ritgerðina mína og útskrifast í júní frá HÍ
-fara í almennilegt sumarfrí með tjaldútilegum og tilheyrandi (Melrakkaslétta - Langanes er komin á dagskrá og Selárdalur við Arnarfjörð kemur sterkur inn líka!)
-ganga á Súlur (var markmið síðasta árs en ég lauk því ekki)
-vera jákvæðari og berjast geng skammdegisþunglyndinu
Hafið það gott í brjálseminni, hvort sem það er pólitík í Reykjavík eða veðurofsinn ;)
21. janúar 2008
Erfiðasti dagur ársins
1) Veðrið
Reyndar er fínasta veður akkúrat núna, kalt og bjart, sólin meira að segja á lofti. Á greinilega ekki við akkúrat í dag ;)
2) Skuldir
Ok, Jóla-Visa filleríið að koma í hausinn á fólki, námslánaafborganir að skella á í mars og hlutabréfamarkaðurinn í rússíbanaferð.
3) Tími
Þriðja almennilega vinnuvikan er að hefjast og fólk er komið í rútínuna aftur - sér ekki fram á almennilegt frí aftur fyrr en um páska. Fúlt.
4) Hætta
Já, ekki 'danger, danger' heldur er fólk hætt að standa við nýársheitin, kortið í ræktina hefur varla verið notað, hvað þá nýju fötin sem splæst var í á janúarútsölum. Fólk heldur áfram að reykja, drekka, eyða og fær samviskubit yfir þessu öllu saman
5) Hvatning / hvati
Er ekki til staðar. Punktur.
6) 'Verð að gera eitthvað'
Fólk fær gríðarmikla þörf fyrir að gera eitthvað til að bæta fyrir allt sem var talið upp hér að ofan og yfirleitt eyðir það meiri pening í hluti sem það notar svo ekki eða í mat og drykk og vaknar svo daginn eftir við vondan draum, meiri skuldir og enn fleiri brostin loforð.
Sem sagt, reynið að gleyma liðum 2-6 - horfið bara út um gluggann og njótið þess að ekki er hríðarbylur úti (alla vega ekki á Akureyri ;)
20. janúar 2008
Now you're one year older.... again
Ég fór nefnilega til Önnu og Jens og höfðu þau og Mummi og Sara smalað saman í spilakvöld þar sem Party & Co átti að spilast fram á nótt. Anna hafði nú laumast til að baka kökur (já, 2 kökur takk fyrir og heitann rétt!) og svo tróðum við nammi og snakki í liðið svo enginn fór svangur heim. Eftir slakan fyrri leik hjá mér og mínu liði, þar sem okkur tókst að fá ekkert nema fýlukalla og bláar hnetur skipti ég um liðsfélaga og með flugmanninum Ragnari spilaði ég til sigurs!
Leiksigur kvöldsins var þó túlkun Jens á kvensjúkdómalækni en sú sjón á eftir að lifa með mér og öllum sem þarna sátu til dauðadags!
Takk fyrir mig öll sömul - ég var ennþá hlæjandi þegar ég fór að sofa ;)
Í dag heldur svo byggingarvinnan áfram - ég er þó slakur vinnumaður enda svaf ég til hádegis því ég er ekki vön að vaka svona frameftir - ussu suss! Aldurinn er greinilega að færast yfir mann...
19. janúar 2008
Jóhanna nýfædd
17. janúar 2008
Nýtt barn í heiminn
16. janúar 2008
Afmælisbörn
Set hér inn mynd frá því í mars í fyrra, þegar niðurrif í íbúðinni var rétt að hefjast og hefur sko margt og mikið vatn og annað runnið til sjávar! Þessi hjólsög hefur líka reynst afar vel og rutt burt veggjum og óvinsælum spítum hér og þar. Bráðum nenni ég að setja inn nýja mynd hér og ætla að reyna að finna sama sjónarhorn... það versta er að allir veggir eru búnir að breytast svo sennilega stæði ég inni í sturtunni og tæki mynd af vegg... hmm... hugsum þetta betur síðar ;)
14. janúar 2008
.:: George Costanza's Answering Machine ::.
Takið sérstaklega eftir því hvernig hann 'dansar' með í seinna skiptið... crack's me up
Gleðin tekin á ný með hjálp Hljómalindar
Ég verð að segja að ekki horfi ég nú oft á spaugstofuna en ég kíkti á hana í hálfleik Barcelona og Real Múrcia og lenti svona skemmtilega á Re/Elect auglýsingunni þar sem Ólafur Ragnar og Dorrit föðmuðu og klöppuðu Bessastaði í bak og fyrir. Ég hló - mikið.
Ég hló ennþá meira í dag þegar ég las um hrakfarir nýju Grímseyjarferjunnar, en hún dólar úti á hafi, með aðra vélina í ólestri og reynir að komast til Akureyrar. Þetta er sagan endalausa og ég grun um að hún eigi aldrei eftir að enda vel.
Set inn hér að ofan gott atriði úr Seinfeld sem fær mig alltaf til að hlæja ;)
10. janúar 2008
Skólablús
Í gær sat ég fyrir framan tölvuna og grét því ég hélt að ég gæti þetta ekki lengur. Ég á að skila verkefni í réttindanáminu í dag og ekkert gekk. Ég missi líka af einni lotunni (af þremur) þegar ég fer til London og stend í stappi með að fá að gera aukaverkefni í staðinn. Á meðan situr MA ritgerðin úti í horni og hlær að mér. Veit að ég hef engan tíma fyrir hana akkúrat núna.
Ég gafst næstum því upp en ákvað að sofa á þessu og viti menn - í morgun var himininn ekki að falla á mig og verkefnið á góðri leið með að verða tilbúið.
Annars veit ég ekki með þetta. Á ég að halda áfram að skila hálfunnum verkefnum sem ég er ekki ánægð með eða hætta og einbeita mér að ritgerðinni, sem í raun skiptir mig mun meira máli og ég vil klára? Ef ég hætti í réttindanáminu er ég ekki einungis að henda peningum út um gluggann heldur einnig hálfu ári af lífinu - eins og það hafi ekki skipt neinu máli. Dilemma...
Eins og er held ég áfram en hversu lengi, það veit ég ekki...
7. janúar 2008
Retch-a-vik
Ég fór á föstudaginn og kom Maríunni minni á óvart í partýi sem haldið var henni til heiðurs (jú María, þú varst heiðursgestur ;) og skemmti mér alveg konunglega.
Um helgina var ég svo í ýmsum útréttingum, hitti Evu sys og gisti hjá Guðjóni og Rúnari á nesinu. Í dag mætti ég svo í vinnu hér í Þýðingamiðstöðina í Þverholtinu og er smám saman að hitta samstarfsfólkið.
Ég býst við að koma heim á morgun en þangað til þá - hafið það gott
2. janúar 2008
Nýt år
áramótaheit finnast mér kjánaleg því yfirleitt heldur maður þau ekki nema í allra mesta lagi í mánuð, en ég setti mér þess í stað markmið:
-klára MA-ritgerðina mína og útskrifast í júní frá HÍ
-klára kennararéttindanámið mitt og útskrifast í maí frá HA
-fara í almennilegt sumarfrí með tjaldútilegum og tilheyrandi (n.b. fellihýsi er ekki tjald)
-ganga á Súlur (var markmið síðasta árs en ég lauk því ekki)
-vera jákvæðari og berjast geng skammdegisþunglyndinu
Árið í ár mun eflaust bera margt í skauti sér en þess má geta að ég ætla að fara til London í mars með systrum mínum í blandaða menningar og verslunarferð. Erum að vinna í hóteli, leiksýningu og veitingahúsi sem eiga að njóta greiðslukortanna okkar ;)
Ég fékk að vita um eitt væntanlegt barn á árinu í jólakorti - alltaf gaman að fá góðar fréttir á jólunum! Til hamingju - þið vitið hver þið eruð ;)