ég þurfti að fara á pósthúsið í dag fyrir vinnuna og þar sem ég stóð í röðinni og beið eftir afgreiðslu var mér litið á nokkra bæklinga sem eru í standi þarna inni. Ég fletti einum sem ber titilinn 'Söluskrá 2005' og inniheldur öll frímerki sem eru í sölu í dag, gömul sem ný og ég fylltist einhvers konar rómantískum hugmyndum um bréfaskrif á bláum pappír í umslögum með köflóttum kanti og orðunum 'Par Avion' í vinstra horninu. Langar núna að setjast niður og skrifa nokkur vel valin orð og senda til vina minna erlendis og jafnvel innanlands.. maður veit aldrei..
Ég fyllist líka þessari tilfinningu þegar ég finn lykt af bókum. Nýjar bækur bera fyrirheit um eitthvað ósnert og er fátt betra en að klæða plastið utan af nýrri kilju og finna hreina pappírslykt blandaða bleki. Gamlar bækur hafa líka að geyma svo miklu meira en bara fróðleikinn sem stendur í þeim. Lyktin segir líka heilmikið um eigendurna; reykja þeir? eru dýr á heimilinu? er sýrustigið búið að vera sveiflukennt þannig að á endunum eru bækurnar þurrar en í miðjunni er ennþá að finna lungamjúkan pappír sem varla hefur séð dagsbirtu. Fólk segir að það eigi aldrei að dæma bók af kápunni - ég dæmi bækur oft eftir lyktinni
11. ágúst 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Frímerki og bækur segirðu... mannstu þegar við fundum kínversku frímerkin í ensku bókinni á amtsbókasafninu, ég á mitt enn!
vá já, alveg var ég búin að gleyma því! Ég held ég eigi mitt ennþá einhvers staðar.. nema ég hafi gefið systur minni það (hún safnar :)
sú hefur verið heppin;-) ... maður á það til að gefa systkinum sínum ótrúlegustu gersemar, manstu eftir rauða ferrari barbíbílnum mínum sem ég geymdi eins og gull undir rúminu mínu í 12 ár svo hann myndi aldrei skemmast?? ..... Jónó beibí fékk hann þegar hann var svona eins árs og braut í spað á nokkrum dögum:-$ ... Ekki að djóka!
Skrifa ummæli