29. janúar 2006

24

það er ótrúlegt hvað auglýsingar hafa sterk áhrif á mann. Er búin að sitja undir svaka auglýsingaherferð um nýjustu syrpuna um Jack Bauer og vini hans (með flottustu símhringingu í heimi - dú dú dírúúúúúú) og heillaðist svo mikið að ég er að ná mér í fyrstu 2 í augnablikinu! Vona að þeir standi undir væntingum hreinlega!

Helgin var alveg ágæt, átti dúndurpartý á föstudaginn og þakka öllum þeim sem litu inn!!
er búin að vera að læra restina af helginni og ætla að glápa aðeins á sjónvarpið núna

27. janúar 2006

ég er ógeðslega löt

við að blogga!
Er búin að vera undir miklu álagi þessa vikuna, mikið að gera í vinnunni, skólanum, einkalífinu og ég veit ekki hvað og hvað! Guðjón minn er farinn til Parísar, ansi leiðilegt án hans

Er búin að þurfa að þola verkamenn alla vikuna því það er víst eitthvað að vatnslögninni í næsta húsi. Ekki nóg með að þessi vandræði hafi byrjað í síðustu viku og olli Guðjóni næstum brunasári (þegar þeir gleymdu að láta okkur vita að þeir tóku kalda vatnið af í smá stund) heldur komu í ljós svo miklar skemmdir að þeir eru búnir að grafa meters djúpan skurð niður hálfa götuna mína! drullan og skemmtilegheitin við þetta allt saman eru alveg búin að reyna á þolinmæði mína en sem betur fer á þetta víst að klárast núna fljótlega eftir helgi.. vona bara að það detti enginn köttur eða eitthvað lítið dýr þarna ofaní!

Sit hérna og er að hlusta á disk sem ég var að setja saman, veit ekki hvort þetta er góð eða slæm blanda af partýtónlist.. kannski of mörg lög úr OC þáttunum! hehehe

23. janúar 2006

afmælishelgi

jahá!
Þessi helgi er búin að vera alveg frábær! Ég átti reyndar erfiðan föstudag sem ég eyddi í hálf-lasleika (kannski að aldurinn sé að færast yfir!) en fékk heimsókn um kvöldið sem gerði lífið auðveldara.
Á laugardaginn var ég svo í vinnu til 5 og skellti mér eftir það í bíó með Lisu á Memoirs of a Geisha og VÁ! alveg var þessi mynd ótrúlega flott! Við sátum í algjörri þögn (nema þegar ég var að gera grín að hreimnum hjá fólkinu með því að segja ´okey dokey doktor Jones' eins og litli strákurinn í Indiana Jones, fliss fliss) og létum myndina alveg heilla okkur. Mæli hiklaust með henni. Eftir myndina kíktum við so á kaffihús þar sem við virtumst vera einu stelpurnar! Á öllum hinum borðunum sátu 2 karlmenn saman.. ansi athyglisvert verð ég að segja.. held við höfum dottið niður á "Man Town" í miðri Reykjavík!

Í dag var ég svo að þrykkja út síðustu útsöluvörunum í vinnunni og tók það ansi mikla orku frá mér. Ég ákvað samt að skella mér aftur í bíó, í þetta sinn með Lindu og Bjarka á Brokeback Mountain og aftur VÁ! Þessi mynd á eftir að sitja í mér ansi lengi - er ennþá að velta fyrir mér ótrúlegu landslagi, fallegri tónlist, enn fallegri karlmönnum og sögu sem er epískari en allt sem epískt er! Vona að sem flestir sjái sér fært að sjá þessar tvær myndir því þær eru alveg á klassa stigi!

er núna að kveðja hann Guðjón minn sem heldur til Parísar snemma í fyrramálið til að vera lítill þræll hjá Givency í 2 vikur..

20. janúar 2006

Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir mig ! Allar kveðjurnar voru frábærar, hvort sem þær komu í formi sms-a, símtala eða sem comment á síðunni - TAKK!
Ég átti alveg frábæran afmælisdag sem náði hápunkti í kvöldmat með mömmu, Evu systur og Árna á American Style. Sjúklega góð nautasteik rann ljúflega niður og bjórinn sem ég fékk frá Ólöfu og Hjalta var alveg það sem ég þurfti til að halda upp á daginn :)
Í dag er ég svo bókuð í nokkur símtöl, köku með Lisu og kaffiboð með Lindu í kvöld...

Um helgina þarf ég að vinna, vinna, vinna en vona að allir hafi það ljúft og gott og ef ykkur leiðist á laugardagskvöldið þá er myndin 28 Days með Söndru Bullock á Rúv -ansi skemmtileg mynd!

knús til allra

18. janúar 2006

afmæli

ég á afmæli eftir hálftíma. 26 ár í pokanum, vonandi eins mörg og helst miklu fleiri eftir ;)
Sit og hlusta á Fistful of Love með Anthony & The Johnsons - annað lag af þessum góða "mix-cd" sem ég fékk að gjöf.. ansi ljúft að hlusta á einhvern jarma tregafull lög..

það er búið að vera svo kalt undanfarið að í dag fannst mér vorið hreinlega verið komið þó aðeins hefði mælirinn rétt skiðið yfir núllið. Hætti mér út í jakka en ekki úlpu, svei mér þá!
Hitti stelpurnar úr þýðingafræðinni á Sólon áðan og áttum við ansi góða stund yfir gómsætum matnum (flestir fengu sér eitthvað með kjúklingi í..hmm :)þar sem við ræddum heimsmálin og litlu málin - ansi gott.
ætla að baka köku þegar Guðjón kemur heim með eggin sem vantar...

ekki slæmt að eiga afmæli :)

15. janúar 2006

sunnudags hugsanir

ég er ekkert búin að vera allt of dugleg í janúar að blogga. held ég sé bara ekki í miklu tjáningarstuði þessa dagana. eða kannski er það vegna þess að ég vil ekki eða má ekki tala um allt í lífi mínu. stundum er leiðinlegt að eiga leyndarmál :)

fékk annars í gær frábæra gjöf - disk með alls konar lögum og meðal þeirra er Blackbird með Bítlunum. þetta lag er einfaldlega snilld, glæst, þétt. alltaf gaman þegar einhver eyðir tíma í að velja handa manni lög sem þeir halda að manni finnist skemmtileg :)

er á leiðinni í verslunarferð upp í úthverfi, aka, Smáralindina, til að finna mér einhverjar spjarir. vona að helgin ykkar hafi verið ánægjuleg og að næsta vika feli í sér skemmtilegheit - mín vika inniheldur a.m.k 3 kaffiboð, 2 afmæli (mitt og pabba), e.t.v. heimsókn frá mömmu minni, skólann og vinnuna...

knús knús knús

12. janúar 2006

Tristam og Ísöld

já krakkar mínir, annar skóladagurinn búinn og þá er ég bara búin í skólanum í þessari viku! flott er!
Fór í bókmenntasögu og málnotkun í morgun og átti ansi erfitt með að vakna klukkan 06:50 en það hafðist eftir smá snooze ;) Fékk úthlutað aukaverkefni í bókmenntasögunni og þarf sem betur fer ekki að halda fyrirlestur ein heldur fæ að vera með henni Þórdísi minni og ætlum við sem sagt að tala um Tristam og Ísöld eða hvernig sem fólk vill skrifa þetta (kennarinn vill hafa það svona :) Það besta við þennan fyrirlestur er að hann er eftir 3 vikur og þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af honum meira. þannig að kannski verður þetta ekki svo erfitt verkefnalega séð en það verður hellings lestur!

Tók annars eftir því að commentin minnkuðu eftir að ég setti inn orða-staðfestinguna þannig að ég tók hana af aftur... ég eyði bara út leiðinlegum spam commentum ef þau koma...

Er að drepa tíminn þar til ég fer á fund og svo bara í vinnuna - alltaf í vinnunni...

10. janúar 2006

dagur 2

byrjaði í ræktinni í gær og fór bæði í gær og í dag.. gerði samning í 12 mánuði þannig að það er eins gott að þetta endist hjá mér!
Hef annars verið einstaklega upptekin undanfarna daga , svo mikið að mér finnst ég hafa hálfpartinn týnt sjálfri mér í leiðinni. Er þreytt, leið og það er einhvern veginn allt svo erfitt í augnablikinu..
kannski þarf ég bara að sofa extra mikið þessa dagana.. það virðast bara ekki vera nógu margar klukkustundir í sólarhringnum til þess!

Skólinn byrjaði í dag - sé fram á mikinn lestur og ansi mikla vinnu út þessa önn.. eins gott að maður er að verða einu árinu eldri til að höndla þetta allt saman ;)

er að sofna

6. janúar 2006

afeitrun

ok, kominn tími á smá línu hérna.
Er komin aftur suður, byrjuð að vinna aftur og skólinn byrjar á mánudaginn. Einhvern veginn er búið að vera miklu meira að gera en ég hélt! Er núna í miðri afeitrun og langar bara að naga eitthvað. Já þessar vökvablöndur eru ekki alveg að gera það fyrir mig en samt er þetta ágætt.. ég er alla vega eiturhress en þarf að pissa svolítið oft!
Annars er voða lítið að frétta, bara éta, sofa, borða og einhvern veginn fyllist dagurinn af þessu...

Er á leiðinni út í rok og rigningu - eins gott að ég á strætókort!

2. janúar 2006

senn á enda förin er

hmm já, svona er þetta þegar maður reynir að vera skáldlegur - það endar allt í hlátursköstum.
Nú fer Akureyrar dvölinni að ljúka í bili og er ég bara nokkuð sátt við fríið mitt í ár. Ég eyddi miklu meiri tíma með fjölskyldunni en áður, fór í bíó en ekki á ball og byrjaði nýja árið með litlu vínglasi en ekki timburmönnum og ælu um morguninn. Eins og Guðjón sagði rétt áðan þá skiptir það máli hvernig maður byrjar árið og ég held ég hafi gert drastíska breytingu í ár með því að byrja það vel!
Ég fer aftur suður á morgun og tekur þá við vika af hálf-aðgerðarleysi þar sem skólinn minn byrjar ekki aftur fyrr en 10 janúar. Verð nú samt að fara í vinnuna og skipuleggja næsta mánuðinn svo ég mun ekki sitja auðum höndum - alla vega ekki allan tímann.
Best að fara og kaupa eyrnatappa fyrir flugið...

31. desember 2005

pistill 2005

geri hér heiðarlega tilraun til að skella þessu inn
Janúar
Vann hjá Íslandspósti í miklum kulda og trekki, synti annan hvern dag og beið eftir að eiga 25 ára afmæli. Náði þeim merka áfanga, fagnaði og eyddi svo vikunni á eftir í ákveðinni lífskrísu. Merkilegt hvað tímamót hafa áhrif á mann. Náði að setja þjófavarnarkefið í gang hjá Erotica shop á Barónsstígnum og fékk það að óma um hverfið í nær klukkustund því Láru brá svo að hún skellti í lás á eftir sér. Klassa leikur.
Febrúar
Nokkuð viðburðalítill mánuður – nokkur partý, meiri snjór og vont veður í póstinum og svo kom þoka dauðans. Reykjavík lá í heljargreipum mestu þoku síðan á landnámsöld og var ekki laust við að ákveðinn hræðsla og manía gripi borgarbúa. Flestir vildu burt en eftir nokkra daga sáum við lengra en 10 metra og borgin róaðist á ný.
Mars
Grái fákurinn hans Guðjóns hlaut hrikalegan dauðdaga þegar ökuþór brunaði á honum niður Hverfisgötuna og skellti honum upp á tvo staura svo hann brann til kaldra kola. Eini ljósi punkturinn við þetta var myndefnið sem Bjössi náði og varð að jólagjöf ársins í ár. Námið hélt áfram og vinnuhóparnir hrönnuðust upp. Kynnti mér þætti sem heita League of Gentlemen og elska þá enn í dag; Páskarnir færðu mér för heim til Akureyrar með tilheyrandi súkkulaðiáti..mmm.
Apríl
Vorið hélt innreið sína í Reykjavík með tilheyrandi sól á lofti og rigningarsudda. Páfinn og Rainier fursti ákváðu að hanga ekki lengur á þessari jörð og var því mikið um grand jarðarfarir og læti í kringum nýjan páfa. Man bara eftir einhverri svaka útsendingu í sjónvarpinu.Ég fór á Þjóðminjasafnið í fyrsta sinn á ævinni og var mjög hrifin – hefði samt viljað sjá gamla safnið til að bera saman; hætti vinnu hjá Íslandspósti og tók upp gamla hvíta sloppinn og skundaði í apótekið á ný.
Maí
Í þessum mánuði flakkaði ég á milli Reykjavíkur og Akureyrar þar sem ég tók upp verbúðalíf í 6 vikur. Kláraði fyrsta ár mitt í þýðingafræðinni þrátt fyrir fall í setningafræði, tsk tsk. Brunaði norður í land og tók upp vinnu og lestur bóka, sótti fjölskyldugrill í hagléli og horfði á Ísland ekki vinna Eurivision eina ferðina enn.
Júní
Fagnaði 5 ára stúdentsafmæli í góðra manna hópi, drakk of mikið en þó ekki eins mikið og sumir og uppskar eftir því. Tómatsósu flögur héldu innreið sína á Íslandi og náði ég að sannfæra að minnsta kosti eina manneskju um ágæti þeirra. Flutti aftur til Reykjavíkur og skellti upp Adjessellinu heima hjá mér með aðstoð Guðjóns – netvæðingin var hafin.

29. desember 2005

Júlí
Mánuður ræktarinnar. Skráði mig í gymmið og var staðföst og brött fyrstu vikurnar - datt svo í sama kæruleysið og alltaf en náði þó af mér einhverju. Fór í fyrstu Esju gönguna mína ásamt Maríu sem reyndist síðar verða Esju buddy-inn minn :) Harry Potter kom og fór með gleði blandaðri sorg – það er bara ein bók eftir. Fór í Nauthólsvíkina í fyrsta sinn og Eva Stína vinkona eignaðist hann Óskar Smára litla gaur. Eyddi versló í Reykjavík og varð ekki meint af.
Ágúst
Hóf vinnu hjá Ikjea sem sölumaður og stend mína plikt í gulri skyrtu. Sá Gay pride í fyrsta sinn með berum augum; fór á Árbæjarsafnið í fyrsta sinn; komst að því að brjóstin á mér heita Elvis – bæði ;) fann ást mína á frímerkjum. Helstu tíðindin voru þau að ég fékk nýtt klósett og blöndunartæki og nýjan/gamlan ísskáp eftir að hinn gaf sig. Nýji/gamli ísskápurinn gaf sig svo síðar á árinu (sjá neðar) Adjessellið hélt áfram að gefa af sér og nú kom kristaltært sjónvarp inn á heimilið með tilheyrandi fagnaðarlátum.
September
Skólinn byrjaði aftur og eftir mikla erfiðleika við að finna fög við hæfi endaði ég í Hollywood söngleikjum og Bókmenntafræði. Var þetta án efa besta ákvörðun ársins þar sem ég endurnýjaði kynnin við Lisu mína og höfum við haft það ansi gott síðan ;) Þvottavélin mín ákvað að elta hin rafmagnstækin á heimilinu og bila. Eftir mikið drama og allt og mikinn pening komst hún í lag og malar nú ánægð í kjallaranum. Planaði bæði heimför og utanför – Akureyri og London yrðu á dagskrá í október.
Október
Skundaði til Akureyrar, flutti systur mína í nýtt hús, tjúttaði og skellti mér svo til London með litlu systur minni. Maturinn á Fifteen var ómetanlegur, og verslunin í London tók stóran kipp - komum við heim á ferðatöskum sem voru að springa á saumunum. Kvennafrídagurinn var stórmerkilegur í mínum augum og arkaði ég með systur minni, Maríu Erlu og Ingibjörgu þar til innilokunarkenndin í mannþrönginni gerði vart við sig. Hrekkjavökupartý var stuð og fórum við Lisa sem Sexy sixties chicks.
Nóvember
Vinnuálag skólans fór að segja til sín og vinnuálag Ikjea einnig – fólk var byrjað að hamstra jólaskraut. Matarboð í anda þakkargjörðarhátíðar Kanadabúa/Bandaríkjamanna var haldið við mikla lukku og gleði og heppnaðist svo vel að ég mun elda áramóta kalkúninn hér heima. Enskupartý hjá Maríu vakti upp gamlar og góðar minningar og sá maður hverjir vilja í raun halda sambandi. Endaði mánuðinn á bestu tónleikum lífs míns (hingað til) í Laugardalshöllinni hjá Sigur Rós..
Desember
Skreytti íbúðina með dóti – keypti jólagjafir í tíma en gleymdi nokkrum jólakortum. Fór heim í laufabrauð, tjúttaði með Ikjea fólkinu á Sólon; uppgötvaði að líf mitt væri nú á öðru skeiði, eða part two; átti frábæran stelpudag með stúlkunum úr Ikjea sem endaði með heljarinnar Pina Colada veislu og setningunum ódauðlegu ‘ég er ekki lesbía’ og ‘ég er á sneplunum’. You had to be there.
Sit svo núna, á síðasta degi ársins og sem þennan lista sem er orðinn allt of langur en er þó árið mitt svona nokkur veginn í stuttu máli ;)
Ég vona að þið hafið það öll gott í dag og kvöld og munið að skjóta upp rakettum/ragettum/fljúgeldum/flugeldum/bombum/kökum/blysum þar til himininn er orðinn svo grár að ekkert sést lengur.

26. desember 2005

þriðji í jólamatsáti

já, bara annar í jólum mættur og ekkert lát á áti!
Ég er búin að eiga alveg frábær jól, mikið að gera og ansi margir pakkar að opna þegar einn 2ja ára gutti er með manni!
Ég fékk gönguskó frá foreldrum mínum og get því þrammað sómasamlega upp á fjöll með Maríu Erlu framvegis ;)
ég fékk líka handklæði og bók og föt frá systrum minum og Ágústi Óla; fallegan leirdisk frá Lisu; The Nightmare before Christmas á DVD frá Guðjóni og svo ofsalega fallega ljósaseríu frá mömmu og pabba líka. Góð jól, allt í allt :)
Eyddi síðan deginum í gær í algjörri afslöppun og fjölskyldu jólaboð sem í ár var haldið heima hjá mér. Át og át og held ég þurfi að fara í saltlosun eftir jolin - pissa þessu öllu út úr mér!

í dag er ég svo að leika mér og lesa bækur- held ég kíki aðeins í kökudallinn og bæti smá í átsafn dagsins í dag

hafið það gott!

23. desember 2005

messa Þorláks

jæja, er að tygja mig af stað út á flugvöll - muna að henda mjólkinni (check) og slökkva á seríunum (check) og ekki gleyma neinu!

Jólakortin mín lentu svona fyrir ofan garð og neðan í ár en þeir sem ekki fengu kort geta huggað sig við það að ég hugsaði alveg rooooooosalega mikið til þeirra;)

hafið þið það gott um jólin, verið góð við hvort annað og vonandi sjáumst við sem fyrst!

Jólin öll sömul!!!!

21. desember 2005

jólalífið byrjar

já nú er ég loksins búin að skila af mér ritgerðinni, búin að ná í jólapakkann frá IKEA, búin að ná í jólagjöfina hans Guðjón og lítið annað eftir en að skella jólakortunum í póst og þrífa aðeins betur íbúðina!
jólaandinn svífur yfir vötnum og afslöppun er ekki langt undan!
fyrir þá sem vilja hitta mig eitthvað fyrir reisuna norður þá er ég að vinna á morgun milli 16-22 og á þorláksmessu milli 10-15.
vona að þið hafið það öll sem best í dag,
ég ætla að kíkja aðeins betur á nammið í jólakörfunni... mmmmm

20. desember 2005

síðustu metrarnir

ég er að klára... ég er alveg að verða búin með ritgerðina... yeeeeeeesss.. skila henni inn á hádegi á morgun og hugsa ekki um hana meir! þá eru jólin að koma.. 3 dögum áður en þau bresta á :)

sit og klára að skrifa og fara yfir suma kaflana - lagfæringar hér og þar og er að þvo þvott í leiðinni.. nenni ekki að byrja nýja árið á að taka til hérna þannig að best að klára þetta í leiðinni, áður en maður fer heim í jólasteikina og svona..

hef þetta stutt í dag, all is well..

19. desember 2005

erfiðara en ég hélt

þessi listi er alveg að fara með mig! er nú reyndar búin að svara öllum hingað til en það var hreinlega ekki eins auðvelt og ég hélt! en svona er þetta.. á maður einmitt ekki að hrista aðeins upp í sálinni og minninu annað slagið og hætta að taka fólk og hluti sem sjálfgefna eða sjáfsagða? jú ég held það.

Fór á laugardaginn í stelpuferð með Salóme, Ólöfu og Steinunni sem byrjaði kl. 10 um morguninn heima hjá Ólöfu. Það var ennþá dimmt úti og við vorum allar sjúklega þreyttar. Eftir spjall og slúður löbbuðum við svo upp laugarveginn og heim til foreldra Ólafar til að ná í jeppann sem beið okkar þar. Brunuðum við svo í Bláa Lónið og vá vá vá! Ég var bláa lóns 'virgin', hafði sem sagt aldrei komið þarna og fílaði mig í tætlur! Við vorum ofaní í einn og hálfan tíma og fórum í gufu, skelltum á okkur leir, fórum í fossinn og löbbuðum/syntum um allt lónið.. snilld.
Þegar rúsínuputtarnir voru orðnir hrikalegir ákváðum við að skella okkur í mat í Grindavík og enduðum á lítilli krá sem heitir Lukku Láki og fengum við okkur geðveika hamborgara. Þessi staður var líka tær snilld - tónlistin alveg á fullu og körfuboltaleikur í sjónvarpinu. Við vorum einu gestirnir og fengum því mjög góða þjónustu.
Nú ég þurfti að fara í vinnuna þannig að við brunuðum aftur í bæinn þar sem ég eyddi fjórum klukkutímum í að afgreiða allt of fáa :) Svo hittumst við aftur hjá Ólöfu um 11 leytið og blönduðum Pina Coladas og enduðum á Celtic um 2 leytið um nóttina.. stuð stuð stuð og meira stuð langt fram á nótt en allt endaði vel og allir komust heilir á höldnu heim :)

Í gær skrifaði ég svo meira í ritgerðinni minni, bakaði smá súkkulaðibitakökur og fór í vinnuna þar sem var brjálað að gera nánast allan tímann!
Í dag er ég svo í fríi og er að klára ritgerðina mína þannig að ég ætti kannski að hætta að bulla hérna.. En ég þarf reyndar að svara tveimur spurningum:
ég er 1.64 á hæð (samkvæmt vegabréfinu mínu - hef ekki mælt mig í mörg ár)

ég held að fótfestan mín sé blanda af nokkrum hlutum, þannig að ef að einn þeirra klikkar þá er alltaf eitthvað annað sem tekur af manni fallið. Til dæmis reyni ég að trúa á sjálfa mig og þykja vænt um sjálfa mig. Ef að það bregst (svona eins og getur gerst) þá trúi ég því að það sé alltaf í það minnsta ein manneskja sem trúir á mann eða þyki vænt um mann. Það er ekkert endilega sama manneskjan gegnum alla okkar ævi en það er alltaf einhver.. þannig að allir eru elskaðir af einhverjum og það er alltaf einhver sem trúir á mann.. þannig að það er allt í lagi ef manni skrikar aðeins fótur - það er alltaf einhver sem hjálpar manni.

vona að þetta svari einhverju :)

16. desember 2005

le list

þessi listi er bæði hjá Ingibjörgu og Maríu Erlu og verð ég því að setja hann inn hjá mér.. ég lofa ekki hröðum svörum en svara þó..
setjið nafnið ykkar í comments ef þið viljið að:

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig.
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef lengi velt fyrir mér um þig.
8. Ef þú lest þetta þá verðurðu að setja þetta á bloggið þitt

úff, þetta verður spennandi held ég bara :)

hlaupatjakkur

það er alltaf jafngaman að finna eitthvað nýtt til að dunda sér við.. Í vinnunni þarf maður stundum að fara með rusl já eða gallaðar vörur inn á lager og notast maður þá oft við tjakk, svona til að færa bretti til og frá. Nú hvað er skemmtilegt við það að draga svona dót á eftir sér þegar maður getur notað þaðsem hlaupahjól og brunað um ganga lagersins á fullu spani!! Hlaupatjakkurinn er orðinn mjög vinsæll og eru stundum slagsmál yfir því hver fær að fara með ruslið.. snilld.

bakaði piparkökur í gær.. nú á bara eftir að skreyta þær með glassúr og perlusykri.. þarf reyndar að kaupa meiri flórsykur til að græja þetta en það reddast..

komst líka að því í gær að það vinnur strákur á lagernum sem er frá Akureyri og er ári yngri en ég.. hef aldrei séð hann heima og trúði honum eiginlega ekki alveg..fyndið hvað maður telur sit þekkja alla í sínum árgangi og árgangnum fyrir neðan en nei... svo er ekki :)

jæja... söngleikjaritgerðin mín kallar - just a spoonful of sugar helps the medicine go down! (gott að syngja þetta þegar ég tek lýsið á morgnanna.. yum yum)