1. mars 2006

Prestur strokinn

Fann þessa grein í tímaritinu Ísafold og er hún frá 3. ágúst 1887:
Prestur Strokinn
Sóknarpresturinn að Hvammi í Laxárdal í Skagafjarðarsýslu, síra Magnús Jósepsson, er í síðastliðnum mánuði hlaupinn af landi burt til Vesturheims með fjölskyldu sína, frá brauði sínu í algjöru reiðuleysi og án nokkurra skila. Hann mun hafa flosnað upp til fulls á þessu voru, og viðskilnaðurinn var sá að öll kúgildi staðarins eru gjörsamlega farin, beinagrindur af 5 hrossum lágu í kringum bæinn, ekkert hrossbein slórði af nema eitt mertryppi veturgamalt, 2 kýr tórðu kálflausar og mjög magrar, og 20 kindur komu fram, allar ullarlausar og horaðar. Kirkjan, að kalla fallin, átti um 900 kr. í sjóði inni hjá prestinum.
Prófastur frétti ekki til þessa tiltækis fyr en síra Magnús var kominn alfarinn á Sauðárkrók. Brá hann strax við, en fjekk eigi kyrrsett prestinn, sem sagðist fara af landi burt hvenær sem hann gæti, væri hann ekki hafður í böndum, og fargjald fengi hann annarstaðar að, sent og lánað, svo ekki yrði það af sér tekið. Prófasturinn fjekk að eins skriflega afhendingu á öllum eptirskildum eignum hans sem auðvitað ná stutt til þess, að staður og kirkja fái sitt.
Fróðlegt verður að frétta, hvort nokkur ízlenskur söfnuður í Vesturheimi tekur þennan mann fyrir prest sinn á eptir.


Fyrstu línurnar vöktu hjá mér kátínu en svo þegar dró á söguna var hún alls ekki fyndin. Þvílík eymd og volæði sem fólk flúði.. síðustu línurnar eru samt ómetanlegar og gott dæmi um hvað fólki fannst hér!

Engin ummæli: