Lengi hefur mig vantað almennilega hvatningu til að hreyfa mig reglulega. Þrátt fyrir að vita um skaðsemi kyrrsetu, nammiáts og óhollustu af öllu tagi þá hef ég aldrei verið nógu hrædd, nógu ákveðin að takast á við vigtina sem mjakast (reyndar mishratt) upp á við á hverju ári. Nú er svo komið að ég er 14 kg og þung miðað við hæð og aldur og allt saman. Jebbsí, og ég er búin að komast að því að þessi kíló eru að sjálfsögðu allt saman fitukíló. Svo markmiðið er núna að hafa teljarann fyrir framan augun á mér og öllum hinum sem koma hingað inn svo ég geti asnast til að taka ábyrgð á mínu lífi og minni heilsu. Fyrir jól lækkaði ég þessa tölu úr 17 kg í 12 kg en 2 komu aftur yfir jólin og prófatíðina (úff púff) svo nú er talan í 14 kg.
Það virðist vera ákveðið "trend" að létta á hjarta sínu í bloggheiminum en þetta er ekkert slíkt. Hver sem sér mig veit að ég gæti auðveldlega lifað heilbrigðara lífi, án þess að ég sé einhver offitusjúklingur á barmi örvilnunar.
Nú er bara að drífa sig út, hlaupa fituna af og byggja upp vöðva. Og hvað hef ég sem gulrót núna?
Nú fyrri gulrótin er ferðin mín til Kaupmannahafnar eftir 49 daga. Ef ég ætla mér að versla einhver föt þá er nú betra að passa í þau - ekki satt?
Seinni gulrótin er fyrirhuguð heimsókn til Parísar og hugsanlega Nice seint í sumar. Það væri nú ekki slæmt að geta spókað sig í landi herðatrjánna í bikiní!
Svo, á hverjum fimmtudagsmorgni vigta ég mig og skelli nýrri tölu á hawaii dömuna hérna uppi.
Fylgist með.....