27. mars 2007

more more more

Eitthvað vesen búið að vera undanfarna daga hérna... vonum það besta

En já, fimmtudagurinn og föstudagurinn runnu saman í eitt því báðir dagarnir fóru í endalausar skoðunarferðir, labb um gamla bæinn í Toledo og annað hvort að borða eða bíða eftir einhverju. Það var ansi mikið um bið í þessari ferð. Við biðum á flugvellinum og svo biðum við eftir að komast upp á hótelherbergi til að hvíla okkur. Nú oft þurftum við að bíða eftir að allur hópurinn væri tilbúinn og svo biðum við líka eftir að vera sótt hingað og þangað eftir að hafa fengið smá frí til að melta þetta allt saman! Með því merkilegasta sem við skoðuðum var samkunduhús gyðinga (synagogue), stærsta gotneska kirkja Evrópu (tók 300 ár að byggja hana og önnur 200 að skreyta hana - púff!)og annan eins gull og glamúr, feita rokókó-engla og mikilmennskubrjálæði hef ég varla séð! Ég var orðin þreytt eftir 20 mínútur en við vorum þarna í 2 klukkutíma! Nú við fengum líka leiðsögn um gamalt munkaklaustur, nokkur af hinum frægu "hliðum" Toledo (borgin var jú alltaf að stækka svo þeir urðu að gera nýja múra = ný hlið) og svo auðvitað um skólann sem við vorum að heimsækja. Hann var einmitt sláturhús í gamla daga. Frekar steikt...

Tvennt er mér þó minnisstæðast úr þessari ferð og sá þér báða þá staði á sérstakri kvöldgöngu sem litlu munaði að ég tæki ekki þátt í . Á föstudagskvöldinu fórum við út að borða (eins og alltaf - þríréttað fyrir minna en 20 evrur) og fórum svo nokkur í smá göngutúr um næsta nágrenni því einhverjir vildu finna bar eða kaffihús til að tylla sér inn á. Ég drattaðist með þó að klukkan væri að nálgast miðnætti og við ættum strembinn laugardag framundan. Fyrst fórum við á tónleika (ókeypis) sem voru í húsi sem reyndist vera 14. aldar kirkja. Luis sagði okkur frá því hvernig húsið hefði verið komið í slæmt ástand og einhver boðist til að gera við það gegn því að fá að reka þarna bar/klúbb næstu 25-30 árin. Svo að þarna stóðum við, í kirkju sem augljóslega var undir áhrifum mára og hlustuðum á rokkhljómsveit spila í "kórnum". Alveg magnað!

Seinna gengum við fram hjá stórri byggingu og var okkur sagt að þarna væri biskupinn með kapellu þar sem fólk mátti koma allan sólarhringinn og biðja. Við gengum inn í þá mestu þögn, kyrrð og ró sem ég hef upplifað en mér fannst ég vera að trufla því þarna sat kona og bað og þegar ég leit betur á hana sá ég að hún grét sáran. Þá fannst mér ég vera hræsnari að standa þarna í gættinni eins og ónærgætinn ferðamaður enda hraðaði ég mér út.

daginn eftir héldum við til Madrídar og London og loks heim á sunnudeginum ... verð að setja það inn í sér færslu – þessi er orðin svo löng.

Engin ummæli: