25. febrúar 2006

af vandræðagangi og vetrarhátíð

ok,
var rosalega dugleg í dag að afla mér upplýsinga og kanna netheiminn sem leiddi mig óhjákvæmilega að Þjóðarbókhlöðunni í enn frekar leit upplýsinga. Ekki vildi þó betur til en svo að þegar ég er að koma upp á 3. hæð hlöðunnar verður mér eitthvað á í síðasta þrepinu og hálf dett ég svona uppfyrir mig en lendi samt á pallinum - beint á milli tveggja stráka sem stóðu á spjallinu! Það eina sem ég gat sagt og gert var "Jesús, enn vandræðalegt" og staulaðist á fætur og gegnum glerhurðina... Rauð í framan og með dularfullan verk í hægri hnésbótinni staulaðist ég að næsta borði og bölvaði í hljóði.. Ég hefði að sjálfsögðu átt að skella mér á línuna "Ég bara féll fyrir ykkur strákar" - en er maður ekki alltaf vitur eftir á?

Í kvöld ákvað ég svo að gerast menningarleg og skellti mér á Þjóðminjasafnið og hlustaði á Þórarin Eldjárn tala um minningar sínar af safninu en hann ólst upp innan veggja safnsins. Maðurinn er með endæmum orðheppinn og kann aldeilis að segja sögur! Eftir lítinn kaffibolla skundaði ég niður á Borgarbókasafn þar sem ljóðlestur, bútasaumur og arabíska hljómuðu um sali safnsins áður en ég trítlaði í næsta hús - Hafnarhúsið. Þar var Stomp að flytja verk ásamt því að allar sýningar hússins voru opnar og vafraði ég aðeins um kalda sali hússins áður en ég ákvað að færa mig úr skuggahverfinu og aðeins nær heimahögunum.

Þjóðmenningarhúsið er eitt af þeim húsum sem ég hef aldrei komið inn í og varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum í kvöld. Tvær yndislegar konur tóku á móti mér með brosi á vör og leiðbeindu mér um húsakynnin á og bentu mér á að "alvöru" handritin væru geymd í dimmu herbergi bakatil í húsinu. Eftir að hafa skoðað ljósmyndir og skreytingar úr handritunum, séð nokkrar fréttamyndir af heimkomu handritanna og vafrað um ein í smá stund fann ég dimma herbergið- og það var aldeilis dimmt. Ég bakkaði næstum út aftur en harkaði af mér og varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Þarna voru þær komnar, Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók - bækurnar sem ég er búin að vera að lesa um og úr. Skinnin af öllum þessum kálfum, teygð og hreinsuð, vandlega skrifuð og nostrað við lágu eins og dýrgripir sem ég hafði aldrei ímyndað mér. Ég fylltist einhverju vandræðalegu stolti sem kannski má kalla klisju en sjaldan hef ég verið eins stolt af því að gea bent á eitthvað og sagt það vera menningararfur minn. Ég endaði ferð mína í litlu herbergi með bandarískum hjónum og dóttur þeirra að skrifa með fjaðurpennum á lítil bréfsnifsi og hlustaði með öðru eyranu á fjölskyldufaðirinn spyrja konurnar um aðferðir við varðveislu á handritunum.

Allt í allt held ég að ég hafi lært meira á 2 klukkutímum í kvöld en ég hef í langan tíma. Vona að þetta hvetji mig áfram í lærdómnum á morgun en nú er kominn tími að skella þjóðlega rassi mínum undir sæng og vona að ég sofni út frá draumum um litla menn við kertaljós að skrifa á skinn.....

Engin ummæli: