28. mars 2005

this is the end

Þá fer páska ævintýrinu að ljúka.. legg af stað aftur suður um kl. 2 í dag. Þetta er búið að vera gott frí, svaf mikið og náði að endurhlaða batteríin fyrir lokaverkefnin. vona að allir hafi haft það gott, takk þeir sem hittu mig, vi ses snart igen

27. mars 2005

Gleðilega páska - happy easter - gledelige paske

opnaði augun í morgun, teygði mig í átt að náttborðinu. skrjáfur í álpappír og *brak* mmm loksins fékk ég súkkulaði.

Já gott fólk í dag er dagur páskanna í hámarki! Verð þó að viðurkenna að mér finnst föstudagurinn langi miklu meiri páskadagur heldur en dagurinn í dag. Í raun er fös. langi annar í páskum því þeir byrja (frí-lega séð) á skírdag. Fólk er allan skírdag að geyspa úr sér langþreytuna og átta sig á því að þeir þurfa ekki að mæta í vinnu og vera að "gera eitthvað" allan daginn. Á föstudeginum langa er fólk svo afslappað og veit af frídögunum framundan og nær því að vera kátt og hresst lengi lengi. Í dag veit fólk að á morgun er síðasti frídagurinn og í margra tilviki (eins og mínu) þýðir það 5 klst. akstur aftur heim í hversdagsleikann. Það sem mér finnst kannski einna helst leiðinlegt er að ég er rétt farin að koma mér vel fyrir hérna heima aftur. Svona er þetta.

Er á leiðinni að horfa á landsleik U-84 liðsins í handbolta, vona að hann Árni Björn standi sig vel og kannski sé ég systur minni bregða fyrir..

Njótið vel súkkulaðsins

26. mars 2005

Ég hef tekið eftir að deyfð liggur yfir bloggheimi vina minna. Kannski eru allir svo saddir og úttroðnir af súkkulaði að þeir hafa sig ekki í að pikka á lyklaborðið. Ég er alla vega í fullu fjöri enda með bestu net-tengingu sem ég veit um :)

Það er búið að vera geðveikt veður heima á Akureyri þangað til í dag. Leit út um gluggann áðan og það er eitthvað grátt andrúmsloft og vindur. Vona nú samt að hann skáni þegar líða fer á daginn.
Eyddi deginum í gær með fjölskyldunni og horfði á nýja þáttinn hans Hemma Gunn. Flottur Hemmi. Veit ekki hvað ég á af mér að gera í dag.. kannski læra?

25. mars 2005

Pétur, ég sé húsið þitt héðan

Já gott fólk, kominn föstudagurinn langi. Merkilegt með nöfn á þessum degi því á ensku er það Good Friday. Hvernig ætli þeir sem ákváðu nafnið á deginum á Íslandi hafi fundist um daginn? Erum við svona alvarlegri en aðrar þjóðir? laaaangur föstudagur í okkar augum því jesú var svo lengi að deyja en aðrir sjá þetta sem góðan dag því hann bjargaði okkur öllum frá glötun? Veit ekki. Veit bara að ég var að hlusta á þátt á Rás 2 áðan og það var einhver kirkjuspekúlant sem var súper klár og sagði skemmtilegar sögur af þessum páskadögum.

Ég vil nota tækifærið og þakka Hólmari fyrir frábært matarboð í gær þar sem asískur matur, grískt salat, spænskt rauðvín, danskur og íslenskur bjór var á boðstólnum og 3 tungumál í gangi! Ég held það gerist ekki alþjóðlegra en það. Fann Pepsi litla sparka og náði að tala um allar góðu sögurnar og slæmu sem við eigum sameiginlegar. Lifi Vialucis

24. mars 2005

út á bakka búa...

ahhhh.. hversu ljúft er að vera í páskafríi?
Held ég hafi sofið í 11 tíma í nótt...eða alla vega 10. amm. Vel verðskulduð hvíld eftir amstur vikunnar og ekkert hægt að skammast sín fyrir það.

Ég horfði á Tryggva Pál og strákana í MA standa sig hetjulega í Gettu Betur og í raun frábært að enda aðeins 3 stigum undir á móti liði sem hefur verið 3svar í úrslitum og aldrei unnið fyrr en nú. Flottir, kúdos.

Ætla að labba í Bónus með mömmu og reyna að sjá eitthvað af hinum frægu akureyrsku einstaklingum...

23. mars 2005

on the road again...

eftir fyrirlestur í gær (sem gékk vel, takk takk) og svefnlitla nótt í gestaherberginu lagði ég af stað heim til akureyrar kl. 2 í dag. Ég hélt 2ja ára barni á snakki í nokkurn tíma og dældi í hana vínberjum með þeim afleiðingum að rétt fyrir utan Varmahlíð skiluðu þau sér upp aftur ásamt hádegismatnum (bjúgu). Flott. Náðum að sveifla okkur í vegkantinn og græja barnið áður en við brunuðum áfram heim og náðum rétt í kvöldmatinn hjá mömmu.

Það er eitthvað ótrúlega afslappandi að komast burt frá hversdagslífinu, sama í hvaða formi það er. Finn strax hvað ég er þreytt og get varla beðið eftir að skríða upp í rúm og sofa vonandi í 9 tíma.

1. dagur í afslöppun er hafinn

19. mars 2005

langþráður laugardagur

ahh geisp geisp!

vaknaði mjög snemma í morgun til að fá bílinn hjá litlu systur minni sem var á leiðinni norður. náði að fara í sorpu með drasl og dósir og græddi 1.790kr! Ekki slæmt það. Er svo búin að fara í Bónus, þvo þvott og er nú fyrir framan tölvu í Odda og reyni að klára fyrirlestur um Robert Browning sem ég flyt á þriðjudaginn en nenni því engan veginn. held ég verði að standa aðeins upp og fá mér kaffi kannski?

gerði mest lítið í gær nema lesa og glápa á einstaklega lélega dagskrá sjónvarpsins. Get bætt mér það upp með Sleepy Hollow í kvöld eða „Í Drungadal“ eins og RÚV kallar hana. Johnny Depp er frekar fyndinn og Christina Ricci hefur aldrei verið jafn föl í framan.

4 nætur í heimför til akureyrar, 7 dagar í páskaegg

17. mars 2005

Viltu kaupa páskasóóóóóóóóó´l

Já gott fólk, tilvonandi barnið mitt er mætt á skjáinn aftur!

litla stelpan sem syngur í auglýsingunum fyrir Egils er draumabarnið mitt og ætla ég að ættleiða hana við fyrsta tækifæri. Að sjálfsögðu fengi hún ekki að gera neitt annað en syngja allan daginn og tjútta svo með mér á kvöldin við að læra ný og skemmtileg lög. Vei!

Fór að hugsa um peel (svona chemical peel fyrir húðina í andlitinu þegar hún er orðin eins og leðurfés) í morgun þar sem ég gekk um götur bæjarins og fékk eitt slíkt ókeypis. Skemmtileg blanda af sandi + vindi + öðru drasli = sandslétt húð og nóg af honum í eitt stykki sandkassa í augum og fötum. Það fyndna var að Guðjón hugsaði nákvæmlega það sama þar sem hann gékk í skólann. Held við séum orðin telepathic. bara flott. Hristi mig vel og vandlega áður en ég gekk upp stigann heima... óþarfi að bera svona drasl upp á 4. hæð.

Horfði á Menntaskólann á Akureyri RÚSTA Versló púkunum í Gettu Betur í gær. Elska hvað þeir voru ótrúlega rólegir og afslappaðir, sérstaklega Tryggvi Páll bróðir Guðjóns.. (hann fær samt mínus fyrir að vita ekki að Singer kom fram með saumavélina, tsk tks) Er farin að hlakka til 5 ára endurfundum árgangs 2000 í sumar, (en það er einmitt tengill á blogg síðu okkar hér til vinstri) og veit ég að ef kvöldið verður eitthvað líkt 1. árs stúdentsafmælinu þá verður stuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuð. Best að muna eftir myndavélinni...

16. mars 2005

Sykur, minn (ó)vinur

ok,

dagur 2 í sykur afvötnun.. veit ekki hvort það er sniðugt að gera þetta rétt fyrir páskana. Kannski maður gefi bara skítt í þetta og fari í almennilega afeitrun þegar maður kemur suður aftur..
Er annars með æði fyrir tómötum þessa dagana. Held ég hafi borðað 4 í dag og annað eins í gær. Verð að fara í grísinn á morgun og kaupa meira..mmm...

Eva systir lánaði mér fyrstu 8 þættina í næstu syrpu af O.C (sem er ekki væntanleg fyrr en í haust á skjá 1) og vá vá vá. Unglingadrama tekið á nýtt stig verð ég bara að segja. Er búin að horfa á 4 og flissaði alveg óstjórnlega.. held að Guðjóni hafi þótt alveg nóg um.

brjálað að gera í skólanum, næ vonandi að klára 2 verkefni fyrir páskafrí.

vika í heimferð, vika í Evu stínu og Anders, vika í 6 daga frí frá hversdagsleikanum.

14. mars 2005

too shy

hljóðið í vindinum gnauðandi fyrir utan gluggann í morgun var bara til þess að ég kúrði aðeins lengur undir sænginni og var því á harðahlaupum niðri við sjó svo ég kæmi nú tímanlega í vinnuna!
Ótrúlegt hvað þetta veður ætlar að vera dyntótt; vor í loftir einn daginn og 4 gráðu frost hinn næsta, brr brr..

Átti góða helgi, þökk sé kvennaboði Ellu-Maju og afslöppunar í gær. bara örfáir dagar þar til ég kemst heim í almennilega hvíld með tilheyrandi páskamatsáti og göngutúrum.

lítið annað að segja, vona að allir séu frískir

12. mars 2005

Hross sparkaði í andlit konu

þetta er ein af fréttum dagsins á mbl.is. Vorkenni konunni, en held að hrossið hafi bara verið eitthvað stressað. Er að vinna í þýðingu á Emmu eftir Jane Austen.. vill týnast inn í hugsanir um myndina sem skartaði einmitt henni Gwyneth í aðalhlutverki og alla kjólana í henni. Held ég eigi við einbeitingarskort að stríða.

3 tímar í partý,
-skál fyrir hafísnum í kringum Grímsey - kannski áttar þetta fólk sig á því hvað það er í raun erfitt að búa þarna.
-skál fyrir komu Franz Ferdinand - tjútt, tjútt og stuð "burn this city" og headbang með nettri sveiflu til vinstri
-skál fyrir sólinni - já hún virðist vera komin til að vera þessi elska, best að grafa upp sólgleraugun

11. mars 2005

Are you local?

Löng vika búin, ekki búin að vera í miklu blogg stuði, hef frekar hringt í fólk. Er að fara í kvennagleði til Ellu-mæju á morgun, vúhú! sit í stofunni og horfi á Patch Adams, man núna hversu niðurdrepandi hún er í raun og veru..

hef verið að horfa á einn og einn þátt af snilldarsyrpu frá BBC sem heitir The League of Gentlemen. get bara sagt fliss fliss og frekar sjúkur húmor. Ætla að taka upp þann sið að spyrja alla sem ég hitt hvort þeir séu Local eða strangers..

hafið það gott um helgina, ég verð önnum kafin við að skemmta mér og þýða Jane Austen

7. mars 2005

Absolutely fabulous overdose

ahhhhh
djö. er oft erfitt að vakna á mánudögum! Hafði það nú samt af og sit nú í skólanum og á eftir að flokka svolítið af pósti og mæta á búlluna í hádeginu :) Nú ég og guðjón fengum okkur súkkulaði tertu í gær, áttum hana skilið þar sem nú er bíllaust á heimilinu..engar ferðir í holtagarða, mcdonalds eða smáralind, sniff sniff..

Annars erum við búin að horfa óeðlilega mikið á Ab-fab þar sem hann keypti seríur 2 og 3 í London (ég gaf honum 1 í jólagjöf) og erum búin að hlægja svo mikið að ég held ég hafi bara styrkt magavöðvana, svei mér þá.. alla vega þá er mikið verk fyrir höndum næstu 6 vikurnar því ég er nefnilega búin að fá vinnu seinnipartinn frá 15 apríl og þarf því að vera búin með verkefna staflann fyrir þann tíma..

brettum upp ermar og dýfum okkur í þetta

6. mars 2005

Ef það var einhverntímann ástæða til að blogga...

... þá er það í dag!!

ok, Guðjón snéri heim í gær frá London og skellti einni fyndnustu/sorglegustu sögu á mig sem ég hef heyrt í laaaaangan tíma!. Ég geri ráð fyrir að fólk hafi séð í fréttum á föstudag að það kviknaði í bíl á hverfisgötunni?? nú, var þetta ekki bara bíllinn hans Guðjóns!!! Hann skyldi hann eftir á BSÍ vegna ýmissa ástæðna, og fær svo símtal frá pabba sínum um hádegisleytið í gær að það hafi ekki verið nein önnur en gamla Mazdan hans sem var stolið, keyrt á ofsahraða niður hverfisgötuna og skellt á staur svo hann brann til kaldra kola. Hversu ó-raunverulegt er þetta?!?! fyrir áhugasama má sjá myndir sem Bjössi náði fyrstur allra hér .megi litli grái fákurinn hvíla í friði.

Annars var helgin mjög fín, kíkti á árshátíð enskunema í safnaðarheimili fríkirkjunnar og komst að því að ég þekkti 3 nemendur og kennararnir mundu ekki eftir mér. flott. Náði samt að spjalla vel við Maríu Erlu og þukla á brjóstinu hennar..flott. svo fór bróðurparturinn af laugardeginum í að þýða og fara yfir þýðingar ásamt spjalli og slúðri og með því..

sigli nú inn í nýja viku með bros á vör sökum góðs veðurs og göngutúrs með evu systur..

3. mars 2005

ást og hatur

ég veit ekki af hverju ég fór að hugsa um þetta en mig minnir að ég hafi verið hálf sofandi þegar þessi kenning myndaðist í kollinum á mér...
við heyrum alltaf að það sé svo mikið hatur í heiminum - það séu endalaus stríð, þjóðflokkabaráttur og einfaldlega ljótt fólk sem gerir ljóta hluti. Þar sem allar tilfinningar og í raun allt vinnur saman í pörum þá hlýtur líka að vera mikið um ást í heiminum.

Þannig að ég komst að þeirri niðurstöðu að fyrir hverja manneskju sem hatar, eða líður illa eða neyðist til að taka þátt í stríði sem breytir henni að eilífu þá hlýtur að vera góð manneskja. Einhver sem elskar, líður vel og hjálpar þeim sem lenda útaf veginum í lífinu og þurfa á hjálp að halda. Og það er bara býsna góð tilfinning að vita af allri þessari ást þarna úti. maður þarf bara að hafa augun opin aðeins betur til þess að sjá hana.

2. mars 2005

banani og kókómjólk

ég fékk hugljómun í gær.

ég var að horfa á sjónvarpið, líkt og venjulega, og datt inní feitabolluþátt á skjá einum. Hvað er betra en amerískar bollur sem vilja létta sig og vinna sér inn smá pening í leiðinni? kannski the Swan ( að setja fólk í lýtaaðgerðir svo það geti svo tekið þátt í fegurðarsamkeppni) schnilld. Alla vega, þegar ég sá hvernig matnum hafði verið stillt upp fyrir framan keppenduna sá ég að allt sem þau borðuðu var brúnt og gult.. Það getur ekki verið hollt að borða bara tvo liti, er það? Sá sem sagt þarna að ég borða bara býsna hollan mat og þarf ekkert að skammast mín! hana nú

Annars var póstmannafélagið að semja við Íslandspóst og það var eins og að mæta í fuglabjarg í vinnuna í morgun, allir brjálaðir, enginn veit neitt um samninginn og gömlurnar alveg að missa sig. Vona að það verði hljóðlátara þegar ég er búin í skólanum svo ég geti pakkað öllum 4 dreifiritunum í friði...

Er að fara að halda míní-matarboð í kvöld, lasagna namm namm