Fyrsta fall vetrarins er staðreynd!
Ég fór í kaffi til Önnu og Jens á sunnudaginn og ákvað að labba í stað þess að vera alltaf á bílnum. Ekki gekk það betur en svo að á leiðinni heim, þar sem ég gekk í sakleysi mínu niður Oddeyrargötuna þá steig ég ógætilega niður og flaug á rassinn! Sem betur fer var enginn þarna því ég hló eins og fáviti, klöngraðist á fætur og labbaði svo flissandi ofan í bringu alla leiðina heim.
Ég náði að næla mér í svæsna kvefpest um helgina og er enn hóstandi og hnerrandi öllum regnbogans litum ásamt því að kafna næstum í svefni. Hressandi. Svo hljóma ég líka eins og konukarl. Í gær þekkti samstarfskona mín mig ekki og þegar Mummi hringdi í mig hélt hann að ég væri nývöknuð. Ótrúlega fínt ;) Ég ætla samt í ræktina á eftir og vona að ég geti hrist eitthvað upp úr lungunum.
Ég tók eftir dálitlu í vor sem ég gleymdi alltaf að blogga um. Á ljósunum hjá BSO sem ég geng alltaf yfir þegar ég kem úr bænum hefur einhver listamaðurinn skellt tveimur svörtum doppum á rauða kallinn. Hvar, heyri ég ykkur hugsa, jú á bringuna. Við Akureyringar skörtum því mjög kvenlegum gönguljósum og ég brosi alltaf ósjálfrátt þegar ég lít upp á rauða ljósið og sé brjóstagóða konuna standa teinrétta og meina mér að ganga yfir götuna.
21. nóvember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
En elskan það er svo stutt fyrir þig að detta... ef ég hafi dotið þá hefði það verið bara fyndið!! Enba hefði ég fengið motion sickness!! hahahahaha!! ;-) love you Pedro!! xxx Haaaaanz
Skrifa ummæli