28. apríl 2008

Everyday People

Muna fleiri eftir þessari snilld? Elskaði þetta lag á sínum tíma og finnst það ennþá flott ;)

Tileinka lagið Mumma og Söru sem eignuðust lítinn dreng í nótt - til lukku mín kæru!

21. apríl 2008

Óliver

Ég kynni stolt nýjustu viðbótina við fjölskylduna mína, labradorhvolpinn Óliver :)





Mummi og Sara fóru með mér í gær að kíkja á tvo rakka sem ég mátti velja á milli. Þessi var mesti töffarinn, enda étur hann nánast allt frá systrum sínum og bróður en örlög okkar beggja voru innsigluð þegar ég hélt á honum og hann pissaði á mig! Þvílíkur klassi að merkja sér eiganda sinn ;)


Ég fæ hann formlega afhentan í júnílok því konan er svo elskuleg að geyma hann aðeins lengur fyrir mig svo ég geti sinnt honum vel í sumarfríinu. Ég fæ samt að fá hann í „aðlögun“ í júnímánuði :)


Þá er bara að finna búr, skálar, ól, hundaöryggisbelti og allt tilheyrandi! Er einhver að losa sig við stórt hundabúr?? ;)


14. apríl 2008

Besti vinur

Um næstu helgi verð ég viðstödd giftingu besta vinar míns.
Lengi vissi ég ekki almennilega hvað "besti vinur" í rauninni var. Ég hélt ég vissi það en var í raun grunlaus. Mér finnst líka alltaf hálf kjánalegt að tala um einhvern sem besta vin - finnst ég komin í leikskóla eða núll bekk frekar en að vera nánast orðin þrítug.

Besti vinur minn var búinn að vera vinur minn í mörg ár en varð bestastur (svo ég dett í leikskólagírinn aftur) þegar við ákváðum að leigja saman íbúð fyrir næstum 4 árum. Mér hefði aldrei þá dottið í hug að ég ætti eftir að tengjast honum svona sterkum böndum, já eða þykja svona óendanlega vænt um hann. Þessi tvö ár sem við bjuggum saman lærði ég meira um sjálfa mig en mörg ár þar á undan.

Þegar ég svo flutti aftur norður fór hann til Parísar en símafyrirtækin okkar græddu heldur betur því það leið nánast ekki sá dagur að ég hringdi ekki í hann, oft bara út af einhverju sem ég las eða sá í sjónvarpinu og fannst fyndið af því það tengist okkur á einhvern kjánalegan hátt. Hann kom svo heim til Íslands aftur í fyrrasumar en ástæðurnar voru ömurlegar því hann greindist með sjúkdóm sem mun fylgja honum alla ævi. Ég hef sjaldan verið jafnreið á ævinni eða fundist lífið jafn ósanngjarnt og þá. Það eina jákvæða við þetta var að símreikningurinn minn snarlækkaði, enda ódýrara að hringja milli landshluta en heimshluta.

Í dag er hann svo fluttur til Belgíu svo Síminn sér fram á góða daga og gróða fyrir hluthafa. Mér finnst erfitt að hafa vini mína svona langt í burtu - hluti af hjartanu fer nefnilega með þeim.

En á föstudaginn ætlar hann að gifta sig og ég fæ að vera með honum og manninum hans. Og það er meira virði en allt annað.

9. apríl 2008

Out with the old, in with the new

Jæja,
út með landsbyggðarfyrirlitninguna og inn með eitthvað nýtt.

Ég er loksins komin með annan fótinn í íbúðina mína! :) Er búin að sofa þar þrjár nætur og fataskápurinn þar tekinn við af litla ljót sem ég hafði áður og í gær dröslaði ég sjónvarpi og spilara yfir svo ég gæti horft á eitthvað skemmtilegra en litinn á veggjunum ;)

Málið er að rafvirkinn á eftir að koma og tengja rafmagnið í stofunni og ég á eftir að skella símanum og internetinu í samband svo svefnherbergið og baðið eru uppáhaldsherbergin mín þessa dagana ;)

Þetta kemur samt allt saman og krúttlegt að labba hálfsofandi yfir til mömmu og pabba í morgunmat.

Þið megið því búast við kaffiboðum og spilakvöldum og alls konar á næstunni og hver veit nema ég splæsi í eitt stykku Eurovision partý?

3. apríl 2008

Landsbyggðarfyrirlitning?

Rakst á þessa frétt á inni á Vísi núna rétt áðan:
Orkuveitan selur gömul líkamsræktartæki

Orkuveita Reykjavíkur er að selja notuð líkamsræktartæki.

Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyritækið keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni.

„Þegar við fluttum yfir í núverandi húsnæði var gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og voru keypt notuð tæki. Síðan var gerður þjónustusamningur við World Class sem sá um aðstöðuna. Fyrir nokkru ákvað World Class síðan að þessi tæki væru ekki boðleg fyrir sýna kúnna þannig að þeir tóku þetta yfir í heild sinni og fylltu stöðina af sínum tækjum," segir Sigrún en í kjölfarið var gömlu tækjunum hent út.

Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.

Því geta einstaklingar ekki nælt sér í einstök tæki en listinn er nokkkuð langur. Þar má sjá kálfavél, fótakreppur, kviðvélar og tvo ljósabekki.„Nei einstaklingar geta ekki nælt sér í ljósabekk hjá okkur. Það er bara annaðhvort allt eða ekkert."

Sigrún segist vonast til þess að aðilar úti á landi geti nælt sér í tækin og byrjað að æfa sem fyrst. „Það er það sem skiptir máli."


Hvað finnst ykkur, lesendur kærir?